Trump segir Obama hafa hlerað sig

Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir …
Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir að sá fyrrnefndi tók við embætti í janúar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar Barack Obama, forvera sinn í starfi, um að hlera síma sína meðan á kosningabaráttu hans stóð. Hann segist hafa komist að þessu fyrir skömmu. 

Trump setti ásakanirnar fram í færslum á Twitter í dag. Þar segir hann m.a.: „Hversu lágt hefur Obama lagst til að hlera símann minn í helgri kosningabaráttu. Þetta er Nixon/Watergate. Slæmur (eða veikur) maður!“

Í annarri færslu skrifar hann: „Ég skal veðja að góður lögmaður gæti flutt gott mál vegna þeirrar staðreyndar að Obama forseti var að hlera símann minn í október, rétt fyrir kosningarnar!“

Í fyrstu færslunni um málið segist Trump fyrst núna hafa komist að því að Obama hafi látið hlera símana í Trump Tower. Rétt áður en kosið var til forseta. „Hræðilegt!“

Hann spyr svo hvort þetta geti verið löglegt. „Nýjum lægðum hefur verið náð,“ skrifar forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert