Forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, segir að ásakanir Donalds Trump forseta, um að Barack Obama hafi látið hlera síma hans, séu rangar. Þetta kemur fram í New York Times í kvöld.
James Comey, forstjóri FBI, hefur beðið dómsmálaráðuneytið að leiðrétta órökstuddar ásakanir Trumps opinberlega, að því er heimildarmenn New York Times herma. Ráðuneytið hefur ekki orðið við því.
Comey fór fram á þetta í gær því hann telur engar sannanir fyrir hendi sem styðji ásakanir Trumps sem m.a. lúta að því að FBI hafi brotið lög.
Trump lét dæluna ganga á Twitter í gær og ásakaði forvera sinn í starfi um að hafa látið hlera síma sína í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember. Hann kallaði Obama m.a. „vondan eða veikan mann“.
Talsmaður Obama segir að ásakanirnar eigi ekki við nein rök að styðjast. Þær séu einfaldlega rangar.
Þingnefnd mun rannsaka ásakanir Trumps í tengslum við rannsókn sína á ásökunum í garð ráðgjafa Trumps um að hafa átt í samskiptum við Rússa í aðdraganda kosninganna.