Trump undirritar ferðabannið

John Kelly heimavarnarráðherra, Rex Tillerson utanríkisráðherra og Jeff Sessions dómsmálaráðherra …
John Kelly heimavarnarráðherra, Rex Tillerson utanríkisráðherra og Jeff Sessions dómsmálaráðherra kynna ferðabannið fyrir fjölmiðlum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í dag nýja útgáfu af forsetatilskipun sinni frá því í síðasta mánuði sem bannar ríkisborgurum sex múslimaríkja að koma til Bandaríkjanna, auk þess að banna flóttamönnum tímabundið að koma til landsins. Þeir sem þegar hafa gilda vegabréfaáætlun fá hins vegar að koma til Bandaríkjanna.

Fjölmiðlar höfðu greint frá því að Trump  myndi undirrita nýtt ferðabann í dag og höfðu upplýsingar um hluta breytinganna þegar lekið í fjölmiðla.

John Kelly heimavarnarráðherra og Rex Tillerson utanríkisráðherra kynna nýju tilskipunina fyrir fjölmiðlum og sendir BBC beint út frá kynningunni.

Líkt og áður hafði verið greint frá þá nær bannið nú yfir ríkisborgara sex ríkja í stað sjö, og hefur Írak þar verið undanskilið upphaflegu tilskipuninni að því er starfsmenn bandaríska heimavarnarráðuneytisins hafa staðfest við fjölmiðla. Guardian segir Írak hafa verið tekið af listanum af því að það tæki þátt í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Bannið nær hins vegar enn yfir ríkisborgara Íran, Sómalíu, Súdan, Jemen, Líbíu og Sýrlands, sem líkt og í fyrri tilskipuninni fá ekki að koma til Bandaríkjanna næstu þrjá mánuði. Nýja bannið mun hins vegarr ekki ná yfir þá ríkisborgara ríkjanna sex sem þegar hafa gilt atvinnu- og dvalarleyfi í Bandaríkjunum.

Líkt og fyrri tilskipunin þá munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttamönnum næstu 120 daga, en ólíkt fyrri tilskipun þá sæta sýrlenskir flóttamenn ekki lengur banni um óákveðin tíma. Samkvæmt embættismönnum heimavarnarráðuneytisins munu sýrlenskir flóttamenn fá sömu viðtökur og allir aðrir sem sækja um hæli í Bandaríkjunum.

Þó núverandi ferðabann heimili taki fram að þeir flóttamenn sem Bandaríkin hafi þegar samþykkt að taka á móti fái að koma til landsins, bendir BBC á að fjöldatakmarkanir sé að finna í nýju tilskipuninni og verði flóttamennirnir ekki fleiri en 50.000 á ári.

Til­skip­un­in mun taka gildi 16. mars næst­kom­andi, og er tíu daga fyr­ir­vararanum sem nú er gefin væntanlega ætlað að koma í veg fyr­ir viðlíka glundroða og fylgdi síðasta ferðabanni Trump, sem dómstólar felldu úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka