Kanslaraembætti Þýskalands segir algjörlega óásættanlegt að forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, líki fundabanni þýskra sveitarfélaga við starfsaðferðir nasista.
Peter Altmaier, ráðuneytisstjóri, segir að ríkisstjórn Þýskalands muni koma þessum skilaboðum á framfæri við tyrknesk yfirvöld enda engin ástæða til þess að sitja undir slíku ámæli segir hann í viðtali við þýska ríkisútvarpið ARD.
Nokkur þýsk sveitarfélög bönnuðu í síðustu viku útifundum sem skipulagðir voru af tyrkneskum ráðherrum til stuðnings Erdoğan en í apríl verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla meðal Tyrkja um að auka völd forsetans.
Yfirstjórn þýsku borganna og bæjanna sem hafa neitað Tyrkjum um að standa fyrir útifundum vísa til þess að erfiðlega gangi að tryggja öryggi fundarmanna en búast megi við miklum mannfjölda á þeim.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa tekið synjunum illa. Angela Merkel, kanslari Þýskaland, hringdi í Binali Yıldırım, forsætisráðherra Tyrklands á laugardag vegna málsins til þess að reyna að draga úr reiði Tyrkja. En síðar þann dag sagði Erdoğan á útifundi í Istanbul að Þýskaland væri langt frá því að vera lýðræðisríki. „Verklag ykkar er ekkert öðruvísi en hjá nasistum hér áður.“
Altmaier ítrekaði orð Merkel í dag um að kosningafundirnir væru alls ekki bannaðir almennt en það sé í höndum hvers sveitarfélags fyrir sig að taka slíkar ákvarðanir.