Vísað úr landi eftir 60 ára búsetu

Þinghúsið í Ottawa.
Þinghúsið í Ottawa. Wikipedia/Maria Azzurra Mugnai

Lögmenn Hollendings sem var vísað frá Kanada eftir að hafa búið þar nærri allt sitt líf hafa farið þess á leit að honum verði hleypt aftur inn í landið af mannúðarástæðum. Len Van Heest, 59 ára, var sendur til Hollands í gær en hann sótti aldrei um kanadískan ríkisborgararétt.

Umsóknarferlið sem Van Heest þarf nú að fara í gegnum er talið munu taka 2 til 3 ár og vafasamt þykir að ósk hans rætist.

Van Heest talar enga hollensku en fregnir herma að hollenskur ættingi og fulltrúi Hjálpræðishersins hafi tekið á móti honum við komuna til Amsterdam.

Hinn ólánsami Hollendingur fluttist til Kanada ásamt foreldrum sínum árið 1958 en sem fyrr segir öðlaðist hann aldrei kanadískan ríkisborgararétt.

Aðstæður hans nú má rekja til nýrra laga sem kveða á um brottvísun útlendinga sem hafa verið dæmdir fyrir alvarlega glæpi eða hafa ítrekað brotið af sér. Van Heest var dæmdur fyrir fleiri en 40 glæpi á árunum 1976 til 2013.

Hann segist hafa þjáðst af geðhvarfasýki en honum hafi tekist að ná tökum á sjúkdómnum. Þá hafi hann hætt neyslu áfengis og fíkniefna.

Van Heest sagði í samtali við ríkismiðilinn CBC að eina ósk sín væri að geta búið áfram við austurströnd Kanada ásamt 81 árs móður sinni.

„Þetta er eina heimilið sem ég hef nokkurn tímann þekkt. Þeir eru að taka móður mína frá mér, alla vini mína. Ég er eyðilagður,“ sagði hann áður en hann gekk um borð í gær.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað ég geri.“

Leiðtogi Græningja og aðrir stuðningsmenn hafa farið þess á leit við kanadísk stjórnvöld að þau grípi til aðgerða vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka