Hver er móðir barnsins?

Hver er móðirin? Tekist á um staðgöngumæðrun fyrir norskum héraðsdómi.
Hver er móðirin? Tekist á um staðgöngumæðrun fyrir norskum héraðsdómi. AFP

Norsk kona sem nýtti sér bandaríska staðgöngumóður er ekki móðir barnsins samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í Noregi. Í frétt Aftenposten segir að konan hafi fengið sæði úr fyrrverandi sambýlismanni, egg úr annarri konu sem var sett upp í leg þeirrar þriðju. Barnsfaðirinn er síðan í sambúð með fjórðu konunni. 

Tekist var á um hver væri móðir barnsins fyrir rétti í Noregi í gær. Er þetta í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi, það er hver eigi barnið þegar staðgöngumóðir gengur með barnið og eggið er ekki heldur frá þeirri konu sem telur sig vera móður barnsins, kemur til kasta norskra dómstóla. 

Aftenposten fer yfir málið og þeirri spurningu sem dómararnir þurtu að svara: Hver getur kallað sig móður barnsins? Er það konan sem vildi eignast barnið? Er það konan sem átti eggið sem var frjóvgað með sæði fyrrverandi sambýlismannsins? Eða er það konan sem fæddi barnið? Hvað þá með núverandi sambýliskonu mannsins - er hún lögmæt móðir barnsins?

Aftenposten fylgdist með réttarhöldunum en þar kom fram að norska konan og þáverandi sambýlismaður hefðu ítrekað reynt að eignast barn saman með tæknifrjóvgun án árangurs. Þrátt fyrir að þeirra sambandi hafi lokið þá vildu þau áfram eignast barn saman og enduðu með að leita á náðir staðgöngumóður.

Egg frá eggjagjafa voru frjóguð með tæknifrjóvgun og komið upp í leg bandarískrar staðgöngumóður. Tilraunin tókst vel og bandaríska konan varð þunguð af þremur börnum. Vegna mikillar áhættu samfara slíkri meðgöngu var ákveðið að eyða tveimur af þremur fóstrum. Meðgangan og fæðingin gekk vel og barn fæddist á bandarísku skjúkrahúsi. Norska konan var úrskurðuð móðir barnsins fyrir bandarískum dómstól og fór hún því til Noregs með barnið. En nú hefur norskur dómstóll dæmt að hún sé ekki móðir þess. Jafnframt er henni ekki heimilt að fá umgengnisrétt við barnið.

Við fæðingu barnsins virðist hafa verið samkomulag milli konunnar og föður barnsins varðandi umgengni en barnaverndaryfirvöld fylgdust með málinu allt frá upphafi og þegar barnið er 18 mánaða hófu leikskólayfirvöld afskipti af málinu og í kjölfarið óskaði faðirinn eftir því að fyrrverandi sambýliskona hans hætti afskiptum af barninu.

Á þessum tíma er faðirinn kominn í annað samband og sagði við réttarhöldin að hann og núverandi sambýliskona vilji að barnið alist upp hjá kjarnafjölskyldu, systkinum og systkinabörnum. Þar sem hann er blóðfaðir barnsins þá er hann einnig réttmætur faðir barnsins samkvæmt norskum lögum og því er föðurnum dæmt forræði yfir barninu og núvernadi sambýliskonu hans. Það er því hún sem er réttmæt móðir barnsins, samkvæmt frétt Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert