Clooney sagði það gagnrýnivert og „sláandi“ að þjóðir heims væru ekki einhuga um að rannsaka glæpi Ríkis íslams.
Hvatti hún forsætisráðherra Íraks til að senda öryggisráði Sameinuðu þjóðanna bréf um málið svo hægt sé að rannsaka glæpi sem framdir hafa verið af Ríki íslams í Írak.
„Fórnarlömbin vilja réttlæti,“ sagði Clooney í ræðu sinni sem flutt var á ráðstefnu um glæpi Ríkis íslams og viðbragða við þeim.
„En réttlæti er útilokað að eilífu ef við leyfum sönnunargögnunum að hverfa, ef fjöldagrafir eru ekki verndaðar, ef læknaskýrslur týnast, ef ekki er hægt að hafa uppi á vitnum,“ sagði Clooney.
Enn enginn komið fyrir dómstóla
Hún sagði því ekki nóg að fella vígamennina á vígvellinum. „Við verðum að fella hugmyndina að baki Ríki íslam með því að fletta ofan af hrottaskapnum og draga glæpamennina fyrir dómstóla.“
Clooney benti á að ekki hafi verið réttað yfir einum einasta vígamanni Ríkis íslams fyrir alþjóðaglæpi í heiminum. „Hvers vegna er það þannig að ekkert hefur verið gert?“
Clooney er m.a. verjandi Nadiu Murad, konu af Jasídí-þjóðinni. Hún var tekin til fanga af Ríki íslams í Írak árið 2014.
Murad er nú góðgerðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna og hefur opinberlega lýst nauðgunum og öðru hrottalegu ofbeldi sem hún varð fyrir. „Hvers vegna tekur þetta svona langan tíma?“ sagði Murad á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. „Ég skil ekki af hverju þið látið Ríki íslams koma upp með þetta, eða hvað þið þurfið að heyra meira til að bregðast við. Svo í dag bið ég írösku ríkisstjórnina og Sameinuðu þjóðirnar um að hefja rannsókn svo að fórnarlömb samtakanna geti fengið réttlæti.“