Þau vilja bara deyja

Saeed er þriggja ára gamall og hann fær martraðir á …
Saeed er þriggja ára gamall og hann fær martraðir á hverri nóttu. Hann horfði á þegar annað barn var afhöfðað og martraðir hans snúast meðal annars um að næst verði það hann. Save the Children

„Börnin eru búin á því andlega. Þegar við reynum að fá þau til þessa syngja og taka þátt í leikjum þá sýna þau engin viðbrögð. Þau hlægja ekki eins og börn gera venjulega. Myndirnar sem þau teikna eru af börnum sem er slátrað í stríði, eða skriðdreka eða umsátur og hungur eru viðfangsefni þeirra,“ segir kennari í sýrlenska bænum Madya í samtali við Save the Children.

Börnin teikna meðal annars myndir af skriðdrekum - ekki blómum …
Börnin teikna meðal annars myndir af skriðdrekum - ekki blómum eða sól. AFP

Ný rannsóknarskýrsla Barnaheilla – Save the Children sýnir fram á gífurleg álagseinkenni og andlega vanheilsu barna innan landamæra Sýrlands. Sérfræðingar vara við að sálrænt tjón barnanna geti verið óafturkræft. Nú eru sex ár frá upphafi átakanna í Sýrlandi.

Undanfarin sex ár hafa sýrlensk börn verið fórnarlömb sprengjuárása og verið svelt. Þau hafa horft upp á fjölskyldur sínar og vini deyja fyrir framan sig í húsarústum heimila sinna. Þau hafa horft á skóla og sjúkrahús eyðilögð, neitað um mat, lyf og sálræna hjálp.

Nú tæpum sex árum frá því stríðið í Sýrlandi hófst er ekki vitað hvaða toll það á eftir að taka á þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi. Enda vita börnin ekki hvort dagurinn í dag sé þeirra síðasti eða kannski morgundagurinn.

AFP

Að minnsta kosti þrjár milljónir sýrlenskra barna undir sex ára aldri þekkja ekki líf án stríðs og milljónir til viðbótar hafa alist upp við ótta og í skugga stríðsátaka. Þetta er kynslóðin sem á að byggja landið upp í framtíðinni.

Óttinn hverfur aldrei

Rannsóknir hafa sýnt að andleg líðan barna sem hafa flúið Sýrland er hræðileg en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á líðan barna sem enn eru í Sýrlandi. Staða þeirra er sú að eitt af hverjum fjórum mun væntanlega glíma við andleg veikindi á lífsleiðinni. Stuðningur foreldra er takmarkaður enda glíma þeir við sömu vandamál og börnin – er þetta minn síðasti dagur?

Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children og sýrlenskir samstarfsaðilar tóku viðtöl við meira en 450 börn, unglinga og fullorðna innan landamæra Sýrlands við vinnslu skýrslunnar. „Invisible Wounds“ er stærsta rannsókn sinnar tegundar sem gerð hefur verið frá upphafi átakanna. Hún lýsir stöðugri skelfingu barnanna og ótta við sprengju- og loftárásir og áframhaldandi ofbeldi. Afleiðingarnar eru hrikalegar fyrir andlega líðan þeirra.

al-Shaar hverfið í Aleppo.
al-Shaar hverfið í Aleppo. AFP

Sérfræðingar sem talað var við segja að börnin þjáist af einkennum „eitraðs álags“ (toxic stress), eða afleiðinga af miklu, reglulegu eða langvarandi mótlæti á borð við það hryllilega ofbeldi sem átt hefur sér stað í Sýrlandi. Þetta eru verstu afleiðingar álags sem börn geta upplifað. Slíkar langvarandi aðstæður eru líklegar að hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra út lífið, hefta þroska heilans og annarra líffæra og auka hættu á hjartasjúkdómum, fíkniefnaneyslu, þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum.

Rannsóknin var unnin á tímabilinu desember 2016 – febrúar 2017 á stöðum eins og Aleppo, Damaskus, Dara’a, al-Hasakah, Hom, Idlib og Rif Damaskus. Svæðin sem urðu fyrir valinu eru þar sem Barnaheill og önnur mannúðarsamtök hafa fengið að starfa á.

Þorpið Kafranbel í Idlib-héraði í morgun.
Þorpið Kafranbel í Idlib-héraði í morgun. AFP

Alls búa 13,5 milljónir Sýrlendinga, þar á meðal 5,8 milljónir barna, við neyð og af þeim eru 4,6 milljónir lokaðar inni á svæðum sem setið er um og erfitt er að komast inn á.

Talið er að hálf milljón landsmanna hafi dáið vegna átakanna en ekki liggja fyrir nákvæmar tölur þar að lútandi. Meðal annars vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar hættu að telja snemma árs 2014 en þá var tala látinna komin í 250 þúsund hið minnsta.

4,9 milljónir, þar af 2,3 milljónir, eru flúin úr landi og halda flest þeirra til í nágrannalöndunum, svo sem Tyrklandi, Jórdaníu, Líbanon og Írak.

Ótti barna sem býr í flóttamannabúðum minnkar eftir því sem frá líður og að sögn sálfræðings sem starfar í flóttamannabúðum í Jórdaníu þá uppgötva börnin eftir einhvern tíma að þau geti sofnað án þess að búa sig undir það að vakna við hljóðin frá sprengjum sem geta kostað þau lífið.

AFP

Börn sem enn eru í Sýrlandi búa ekki við þann munað – óttinn yfirgefur þau aldrei. Marvan er á aldrinum 5-7 ára og býr í Aleppo. Hann hatar flugvélar því þær drápu pabba hans. Þetta endurtók hann í þrígang þegar starfsmenn Barnaheilla ræddu við hann og rödd hans hækkaði í hvert skipti.

Ég yrði ringluð ef loftárásirnar hættu

Aboud sem er 12-14 ára og býr í Idlib segir að hann sé alltaf reiður og Rihab sem er 8-11 ára og býr í Aleppo segist ekki þora í skólann vegna ótta við að sprengjum verði varpað á hann. „Ég yrði örugglega ringluð ef ég myndi ekki heyra eða sjá loftárásir, því það gerist svo oft,” segir Ala’a en hún er 12-14 ára og býr í Austur-Ghouta.

Zeinah, 15-17 ára íbúi í Aleppo, segist fyllast sorg á frídögum en ekki foreldrar hans því þau eru bæði dáin. Hann sé sorgmæddur vegna þess að hann er einn alltaf deyi fleiri sem hann þekki.

Ahmed, sem starfar meðal barna í Idlib, segir í skýrslu Barnaheilla að börnin í Sýrlandi séu alltaf stressuð og þar skilji á milli þeirra og annarra barna. Í hvert skipti sem eitthvað óvanalegt hljóð heyrist, svo sem hurð er skellt eða stóll færður til, þá hrökkvi þau við. „Þetta eru viðbrögð við ótta – við flugvélahljóð, sprengjugný stríðs.”

AFP

Börnin óttast um framtíð sína og það sem þau þrá einna mest er að afla sér menntunar svo þau eigi sér einhverja framtíð. En þegar skólagangan er jafn stopul og raun ber vitni gleymist þekking, svo sem að reikna og lesa.

Mig langar að læra og mig langar að verða fullorðin

Zainab sem er 11 ára deilir þessum áhyggjum en hún hefur ekki getað gengið í skóla í tvö ár og bróðir hennar sem er 9 ára hefur nánast aldrei farið í skóla. “Hvað ef ég næ því að verða fullorðin og staðan verður áfram þessi. Hver verður framtíð mín? Mig langar að læra og mig langar að verða fullorðin og kenna börnum mínum. Mig langar að verða kennari en hvað ef þessi ár líða bara og ég verð ekki neitt. Þetta er óréttlátt.”

Orð hennar koma ekki á óvart því frá því stríðið braust út hafa verið gerðar yfir fjögur þúsund árásir á skóla í Sýrlandi, tæplega tvær á dag. Einn af hverjum þremur skólum eru ónothæfir en þeir hafa eyðilagst í loftárásum, verið breytt í neyðarskýli fyrir fjölskyldur á flótta, eða herteknir af vopnuðum hópum sem nota þá sem herstöðvar, fangelsi eða pyntingarklefa. Um 150 þúsund starfsmenn skólanna eru flúnir úr landi. Jafnvel þar sem skólarnir eru enn til staðar eru foreldrar hræddir við að leyfa börnum sínum að fara þangað þar sem skólar eru vænlegt skotmark í huga stríðandi fylkinga. Önnur ástæða er sú að börnin verða að taka þátt í því að afla fjölskyldunni lífsviðurværis.

Matur er oft eitthvað sem börn geta aðeins látið sig …
Matur er oft eitthvað sem börn geta aðeins látið sig dreyma um. AFP

Ungir drengir eiga á hættu að vera gerðir að stríðsmönnum þrátt fyrir ungan aldur eða gert að þjóna stríðsherrum, svo sem við þrif og eldamennsku.

Stúlkur eiga hins vegar á hættu að vera þvingaðar í hjónaband en margir foreldrar sjá ekki annað í stöðunni en að gefa þær mönnum úr efnaðri fjölskyldum. Stúlkurnar eru allt niður í 11 ára gamlar og að sögn eins hjálparstarfsmanns sem rætt var við er talið að þær séu útrunnin vara eftir 16 eða 17 ára aldur. Þeirra tími sé liðinn á hjúskaparmarkaði.

Yousra er sálfræðingur í suðurhluta Sýrlands. Á heilsugæslunni sem hún starfar á hafa margar ungar stúlkur leitað eftir sjálfsvígstilrauna í kjölfar þrýstings á að ganga í hjónaband. Þær telja að dauðinn sé skárri kostur heldur en hjónabandið þar sem þeirra bíður jafnvel kynferðislegt ofbeldi.

AFP

Firas er faðir Saeed sem er þriggja ára. Þrátt fyrir ungan aldur þá er ólíklegt að sár Saeed á sálinni muni nokkurn tíma gróa að fullu.

„Sonur minn vaknar um miðjar nætur. Hann æpir upp úr svefni. Svona hefur þetta áhrif á börnin. Hann fær martraðir og vaknar grátandi og stundum hleypur hann út á götu. Hann fær martraðir vegna stríðsins og loftárásanna. Vegna ótta. Barni var slátrað fyrir framan hann og síðan hefur hann dreymt að einhver ætli að drepa hann. Þegar barn verður vitni af afhöfðun hvernig getur það annað en að verða hrætt?,” segir Firas.

Þrjár milljónir sýrlenskra barna hafa aldrei upplifað annað líf en …
Þrjár milljónir sýrlenskra barna hafa aldrei upplifað annað líf en stríð. AFP

Tæplega 650 þúsund manns býr á svæðum sem setið er um og engar matvælasendingar berst til. Meðal annars í Austur-Ghouta en þar eru bæir sem hafa fengið eina sendingu með mat og lyf með formlegum  á síðustu fjórum árum. Eða eins og eitt barn sagði: Mig langar svo í epli. Ég sakna þess svo að fá aldrei epli. Það eru komin tvö ár síðan ég smakkaði síðast epli.

Óska þess að vera skotin af leyniskyttum svo þau komist í burtu

Hala, sem er kennari í bænum Madaya, lýsir því hvaða áhrif hungur og önnur neyð hefur á börn.

„Börnin óska þess að þau séu dáin og þau fari upp til himna þar sem er hlýtt og nóg að borða. Þar geti þau leikið sér. Þau óska þess að leyniskyttur skjóti þau því ef þau særast þá fari þau á sjúkrahús og komist í burtu af umsátursvæðinu. Þar fái þau eitthvað að borða. Það er enginn hræddur við loftárásir eða sprengjurnar lengur. Þau segja: Ef við verðum fyrir tunnu (ákveðin tegund af sprengjum)  eða loftárás þá förum við til himna til Guðs og fáum að borða hvað sem er.”

Epli eru eitthvað sem fá íslensk börn þurfa að neita …
Epli eru eitthvað sem fá íslensk börn þurfa að neita sér um ólíkt sýrlenskum börnum.

Í skýrslunni kemur fram að stríðið hafi eyðilagt bernsku barnanna. Í viðtölum og rýnihópum kom fram að 78% upplifa sorg og gífurlegan dapurleika stundum eða alltaf - og næstum allir fullorðnir sögðu að börnin hefðu orðið hræddari og óttaslegnari eftir því sem stríðið hefur dregist á langinn.

Fyrir stríðið voru aðeins tvö geðsjúkrahús starfandi í Sýrlandi en á þeim tíma voru íbúar landsins 21 milljón talsins. Fjöldi lækna og sérfræðinga hafa flúið landið og vægðarlausar sprengjuárásir og skertur aðgangur hjálparstarfsmanna að svæðum sem verst hafa orðið úti bitna á almennum borgurum. Samkvæmt skýrslunni er áætlað að 70 geðlæknar séu starfandi í landinu öllu, flestir í höfuðborginni Damaskus. Tveir geðlæknar eru starfandi í Austur-Ghouta og Dara'a en íbúarnir eru 1,4 milljónir. 

AFP

„Við erum að bregðast börnum innan landamæra Sýrlands. Sum þeirra hafa þurft að takast á við hryllilegar afleiðingar stríðsins, að sjá foreldra sína drepna eða að búa við umsátursástand án þess að fá nokkurn stuðning. Við eigum á hættu að dæma heila kynslóð barna til lífstíðarangistar og andlegra og líkamlegra heilsufarsvandamála – og við verðum að tryggja að börn sem hafa þegar misst sex ár af lífi sínu í stríðinu, tapi ekki framtíð sinni líka,“ segir Dr. Marcia Brophy, yfirmaður Save the Children í heilbrigðis- og sálfræðistuðningi í Miðausturlöndum, í skýrslunni.

AFP

Samkvæmt skýrslunni er eina leiðin til að snúa þróuninni við að enda ofbeldið í Sýrlandi - að sprengjuregnið hætti - enda er það aðal ástæða andlegra vandamála barnanna.

„Við erum að verða vitni að alvarlegri andlegri kreppu í barnasamfélaginu í Sýrlandi, afleiðingu af sex ára stríðsrekstri. Börn lamast af hræðslu þegar þau heyra hátt hljóð, þau eru of skelfingu lostin til að leika úti og of hrædd til að fara í skólann. Ofan á allt það hafa þau áhyggjur af framtíð sinni án menntunar. Þetta er harmleikur sem getur ekki fengið að viðgangast lengur,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Skóli í bænum Utaya, í héraðinu Austur-Ghouta.
Skóli í bænum Utaya, í héraðinu Austur-Ghouta. AFP

Barnaheill – Save the Children kalla eftir tafarlausu vopnahléi og samningaviðræðum um stríðslok. Auk þess skora samtökin á stríðandi fylkingar að hlífa íbúabyggðum og innviðum á borð við skóla og spítala. Umsátri verði tafarlaust hætt og hjálpar- og mannúðarsamtökum veittur skilyrðislaus aðgangur að öllum svæðum til að ná til þeirra sem mest þurfa á að halda. Þá hvetja samtökin stuðningsaðila á alþjóðavísu að skuldbinda sig til að styðja andlega heilsu og velferð barna þar sem neyð ríkir – og að nægilegt fé sé sett í geðheilbrigðis- og sálfræðistuðning innan Sýrlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert