Bókin var mistök

AFP

Norski blaðamaðurinn Lorns Bjerkans gerði þau mistök að taka bók um Ríki íslams með sér í flug til Bandaríkjanna. Hann hefði betur látið það ógert. Í stað þess að njóta lífsins á sólarströnd í Mexíkó var hann hnepptur í varðhald.

Fjallað er um raunir blaðamannsins í Aftenposten í dag. 

„Klæddu þig úr öllu, snúðu við, sundur með fætur, beygðu þig niður, hóstaðu, snúðu þér aftur við, lyftu typpinu og pungnum upp. Opnaðu munninn, lyftu tungunni, settu hana niður aftur.“ Svona lýsir Bjerkans aðstæðum sem hann lenti í á flugvellinum í Orlando í Flórída nýverið.

„Ég ætlaði að ljúka þessum degi á strandbar í Mexíkó eftir margra klukkutíma ferðalag. Njóta þess að fá ferskan mojito. En þess í stað stóð ég nakinn og sýndi alla líkamsparta í fangelsi í Bandaríkjunum. Hvernig gat þetta gerst?“ segir blaðamaðurinn.

Nokkrum tímum fyrr hafði hann lent á flugvellinum í Orlando en þetta var á milli jóla og nýárs, þrjár vikur í að Donald Trump tæki við sem forseti Bandaríkjanna. Næsta mánuðinn ætlaði Bjerkans að ferðast um Mið-Ameríku og var stefnan tekin á Cancún í Mexíkó. 

Skjáskot af bók Åsne Seierstads, To søstre.
Skjáskot af bók Åsne Seierstads, To søstre.

Að loknu vegabréfseftirliti var hann stöðvaður af tollvörðum og skoðuðu þeir farangur hans. „Hvers konar bók er þetta?“ var hann spurður.  Á bókarkápunni er merki vígasamtakanna Ríkis íslams. Þegar tollvörðurinn opnaði bókina blasti við kort af Sýrlandi. Bókin fjallar um tvær systur sem ólust upp í Noregi en fóru til Sýrlands og gengu til liðs við Ríki íslams, sagði Bjerkans en bókin er nýjasta bók Åsne Seierstads, To søstre.

Spurningum rigndi yfir blaðamanninn: Hvaða áhrif hafði bókin á þig, hvers vegna ertu að lesa hana? 

Staða hans batnar ekki þegar farið er yfir stimpla í vegabréfi blaðamannsins, meðal annars ferðalag til Íran árið 2014. Við tekur löng bið og fleiri spurningar. Þá er honum tjáð að ESTA-heimild hans sé ógild en slíka heimild þurfa Norðmenn, líkt og Íslendingar, að fá áður en þeir hyggja á ferðalög til Bandaríkjanna og gildir í tvö ár. 

ESTA-áritunin var gefin út hálfu öðru ári fyrr vegna fyrra ferðalags til Bandaríkjanna. Eftir það var reglunum breytt á þann veg að þeir sem fara til Íran, Írak, Súdan eða Sýrlands eftir mars 2011 þurfa að sækja um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna en hana hafði Bjerkans ekki sótt um. Skipti þar engu að ESTA-heimildin gilti til mars 2017. 

Bandarísku embættismennirnir skoðuðu síðan færslur hans á samfélagsmiðlum. Þar kom í ljós að hann á tvo vini á Facebook sem eru fæddir í Íran og því þurfti að hann að svara spurningum tengdum þeim. Svo var hann spurður um mynd sem hann hafði birt á Instagram af bók sem heitir Norsk jihad og var myndin tekin þegar Bjerkans var á ferðalagi í Óman. 

Nokkrum tímum síðar er Bjerkans tjáð að hann fái ekki að koma inn í Bandaríkin og verði að snúa aftur til Noregs. Skiptir þar engu að hann ætli sér alls ekkert inn í Bandaríkin heldur fari flugvél hans til Mexíkó eftir nokkra klukkutíma. Í fangaklefa skal hann. 

Fingraför eru tekin, myndir af sakborningi og hann rekinn úr öllum fötunum. Yfirheyrður um hvort hann ætli að stofna til átaka í fangelsinu og svo mætti lengi telja. Tæpum tveimur dögum síðar er hann á leið til Noregs, þangað sem ferðalagið hófst. Þremur dögum síðar er Bjerkans lagður af stað á nýjan leik til Mexíkó en nú í gegnum Frakkland og Kosta Ríka. Ferðalagið gekk að óskum en bandaríska sendiráðið í Ósló neitar að svara spurningum um hvernig hafi staðið á þessu. Spurningum sem sennilega fást aldrei nein svör við.

Hér er hægt að lesa frásögn Lorns Bjerkans í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka