Múslimskar konur í Frakklandi finna til fordóma hvort sem þær velja að hylja hár sitt eða ekki og margar hafa kosið að stíga fram og tjá sig, hvort sem er í ræðu eða riti. Þær segja hefðbundinn femínisma hafa brugðist sér og þær berjist nú við fordóma á þrennum vígstöðvum; þegar kemur að kynlífi, trúarbrögðum og uppruna.
„Ekki frelsa mig; ég skal sjá um það sjálf,“ tísti félagsfræðingurinn Hanane Karimi, þekktur múslimskur femínisti.
Í Frakklandi er að finna stærsta samfélag múslima í Evrópu; fólk frá Alsír, Marokkó og Túnis, og öðrum fyrrverandi nýlendum, t.d. Senegal og Malí.
Að sögn heimildarmyndagerðakonunnar Söruh Zouak er lítill minnihluti múslimskra kvenna í Frakklandi „neyddur“ til að ganga með höfuðklút. „Það er raunveruleikinn, við megum ekki afneita því.“
En, segir hún, þær sem velja sjálfar að klæðast klút eða andlitsslæðu eru settar í sama hóp og þær sem eru neyddar til þess og sú ályktun dregin að ákvörðunin sé tekin af föður, eiginmanni eða bróður.
Í nýlegu safni ritgerða eftir blaðamenn, félagsfræðinga og aðgerðasinna, sem ber titilinn Slæður og fordómar, er franskt samfélag sakað um að „eigna sér“ raddir múslimskra kvenna og tala fyrir þær.
Andlitsslæðan er orðin eitt helsta skotmark þeirra sem haldnir eru fóbíu gegn íslam, segja ritgerðasmiðirnir og halda því fram að strangar reglur um aðskilnað trúarinnar frá hinu opinbera lífi hafi hvatt til sjálfsímyndarstjórnmála jafnvel þótt veraldarhyggju sé ætlað að standa vörð um trú- og annað frelsi.
Hinn hefðbundni hijab var bannaður úr kennslustofum og opinberum byggingum í Frakklandi árið 2004 en er algeng sjón á götum úti.
Andstöðu gegn klæðnaðinum er að finna bæði á hægri og vinstri vængjum stjórnmálanna, sem skapar spennu og er olía á eld róttækra afla innan íslam, að sögn múslimskra aðgerðasinna.
Síðasta sumar varð hið svokallaða búrkíní, sundfatnaður sem hylur nær allan líkamann, brennandi heitt mál í aðdraganda forsetakosninganna.
„Hægrið hefur tekið klárlega rasíska afstöðu en sósíalísk ríkisstjórn síðustu fimm ára var ein sú versta fyrir okkur,“ segir Zouak, sem kom á fót samtökum til að gefa konum sem hafa orðið fyrir rasískri og kynbundinni kúgun rödd.
Hún rifjar upp ummæli Manuel Valls, þáverandi forsætisráðherra, sem studdi þá borgarstjóra sem ákváðu að banna búrkíni á ströndinni. Sagði hann að slæðan væri táknmynd þrælkunar kvenna.
Zouak bendir einnig á ummæli ráðherrans Laurence Rossignol, sem fer með málefni kvenna, en hún líkti konum sem klæðast andlitsslæðunni við „negra sem studdu þrælahald“ í Bandaríkjunum.
Karimi og fimm aðrir femínistar fordæmdu Rossignol í opnu bréfi og sögðu að hún ætti að verja málstað allra kvenna.
Ráðherrann dró ummæli sín til baka en Zouak gekk lengra og sakaði hann um að vera hvítan femínista sem berðist gegn kúgun af höndum karlmanna með því að segja múslimskum konum hvernig þær ættu að klæðast og hugsa.
Önnur múslimsk kona sem hefur stigið fram og tjáð sig um málið er Hanane Charrihi, sem gaf nýlega út bók í minningu móður sína sem var myrt í hryðjuverkaárásinni í Nice í júlí, þegar bifreið var ekið inn í hóp fólks.
„Slæðan mín er ekki til marks um undirgefni við karlmann heldur Guð,“ sagði Charrihi í samtali við AFP. „Hún er afsprengi persónulegrar trúarlegrar vegferðar.“
Þá bætti hún við: „Þú berst fyrir frelsi, til að kona geti verið í slæðu ef hún vill, eða mínípilsi ef það er það sem hún velur.“
Félagsfræðingurinn Eric Fassin segir sláandi að konur væru nú að tjá sig um málið, eftir langan tíma þar sem umræðan hefði átt sér stað án þess að raddir þeirra heyrðust.
„Okkur var talin trú um að konurnar mættu ekki tjá sig en í raun lögðum við til þessarar þöggunar með því að gefa þeim ekki rödd,“ segir hann.
Á sýningu heimildarmyndar Zouak um marokkóskar konur vildu áhorfendur fyrst ekki ræða málið við AFP. En svo steig fram kona sem starfar við menntamál og sagðist verða fyrir fordómum.
„Ef ég segist vera múslimi og klæðist slæðu utan vinnu dregur þú þá ályktun að ég eigi hræðilegan eiginmann. En ég myndi gjarnan vilja að þú hittir hann!“