Tveimur dögum áður en Preet Bharara, ríkissaksóknari í New York, var rekinn neitaði hann að taka á móti símtali frá forsetanum Donald Trump. Bharara er í hópi þeirra 46 ríkissaksóknara sem dómsmálaráðherrann Jeff Sessions hvatti til að segja af sér á föstudag.
Bharara er sagður hafa haft samband við dómsmálaráðuneytið eftir að Trump hringdi. Vildi hann fá leyfi ráðuneytisins til að tala við forsetann, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildamanni innan dómskerfisins. Bharara fékk hins vegar ekki leyfið og hafði því aftur samband við Hvíta húsið og sagðist ekki geta talað við forsetann án leyfis yfirmanna sinna.
Bharara er ríkissaksóknari í suðurhluta New York-ríkis, m.a. Manhattan, og hefur því yfirumsjón með margvíslegum spillingarmálum og kærum á hendur meintum hryðjuverkamönnum. Bharara sagði á laugardag að hann hefði verið rekinn eftir að hafa neitað að segja af sér, en saksóknarinn greindi fréttamönnum frá því í nóvember að Trump hefði beðið hann að sitja áfram.
Embætti ríkissaksóknara er pólitísk ráðning og vanalegt er að skipt sé um í þeim embættum, líkt og öðrum pólitískum valdastöðum. Ákvörðun Sessions kom engu að síður á óvart, enda ekki vanalegt að skipt sé út öllum sem ráðnir voru í valdatíð síðasta forseta. Alls eru ríkissaksóknarar í Bandaríkjunum 93 talsins og eru þeir skipaðir til fjögurra ára í senn.
Hvorki dómsmálaráðuneytið né Hvíta húsið hafa viljað tjá sig um fréttir af samskiptum Bharara og starfsmanna Trumps.
Síðasta miðvikudag bárust Bharara beiðnir frá þremur hópum sem fylgjast með hagsmunaárekstrum um að grípa til aðgerða til að stöðva Trump-samtökin í að taka við greiðslum frá erlendum ríkisstjórnum, enda geti slíkar greiðslur falið í sér hagsmunaárekstra fyrir forsetann sem hefur ekki afsalað sér eignarhlut á fyrirtækjum sínum.
Norm Eisen, fyrrum siðamálalögfræðingur Hvíta hússins sem nú fer fyrir hagsmunasamtökunum Citizens for Responsibility and Ethics, segir tímasetningu uppsagnarinnar vekja upp spurningar.
„Ég tel að eitthvað sérstakt hafi gerst,“ segir hann. „Maður ákveður ekki að halda 46 manns áfram í vinnu og ákveður svo allt í einu að krefjast þess að þeir hætti fyrirvaralaust, án þess að eitthvað hafi gerst.“