Ákærð fyrir veisluhöld

Frá Teheran í Íran.
Frá Teheran í Íran. Wikipedia/Shemiran

Bandarísk-íranskur maður og eiginkona hans hafa verið formlega ákærð fyrir að halda samkvæmi í Teheran en önnur hjón hafa verið dæmd til dauða fyrir að standa að siðspilltum samkomum.

Saksóknari í Teheran greindi frá þessu í dag en upplýsti ekki um nöfn fólksins. Talið er að maðurinn, sem er með tvöfalt ríkisfang, sé eigandi gallerís í höfuðborginni sem oft hélt veislur fyrir höfðingja og útlenda sendiráðunauta áður en hann og kona hans voru handtekin síðasta sumar. 

Saksóknari, Abbas Jafari Dolatabadi, segir að þau hafi boðið upp á áfenga drykki og hvatt til spillingar og siðspillingar með því að bjóða fólki af báðum kynjum. 

Hann segir að 4 þúsund lítrar af áfengi hafi fundist í kjallara húss þeirra í Teheran. Hjónin eru  zaraþústratrúar og er því heimilt að eiga áfengi til einkanota. Aftur á móti er þeim bannað að veita múslimum áfengi. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að samkvæmt hefðinni geti utanaðkomandi ekki snúist til zaraþústratrúar heldur þarf fólk að fæðast inn í hana. Augljós afleiðing þessarar hefðar er að áhangendum trúarinnar fer smám saman fækkandi og hefur hefðin orðið umdeild á síðari tímum.

Þótt þeir sem aðhyllast zaraþústratrú séu nú á dögum innan við 200 þúsund var þessi trú á sínum tíma ríkistrú í Persíu. Boðskapur Zaraþústra hafði gífurleg áhrif á seinni tíma trúarbrögð svo sem gyðingdóm, kristni og íslam og er talað um Zaraþústra sem fyrsta boðbera eingyðistrúar.

 Dolatabadi segir að fólkið sem var dæmt til dauða hafi tekið þátt í „kynlífsfrávikum (sexual deviation)“ Þau voru dæmd sek um spillingu á jörðu, refsiákvæði sem var sett í hegningalög eftir byltinguna 1979. Refsingin er alltaf dauðadómur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert