Egypskur saksóknari hefur ákveðið að sleppa Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands, lausum úr fangelsi. Þetta sagði lögfræðingur Mubarak eftir að áfrýjunardómstóll sýknaði hann af aðild að drápum á mótmælendum árið 2011.
„Hann getur farið heim um leið og læknar ákveða að hann sé fær um það,“ sagði lögfræðingurinn Farid el-Deeb og bætti við að Mubarak sé meinað að yfirgefa Egyptaland meðan á annarri rannsókn á meintu fjármálamisferli hans stendur.
Mubarak, sem er 88 ára, hefur verið í haldi á hersjúkrahúsi í Kaíró meira og minna síðan hann var handtekinn árið 2011.
Hann var í byrjun mars sýknaður af aðild að drápum á mótmælendum meðan á byltingunni stóð þar sem honum var velt úr sessi eftir þrjátíu ára valdatíð.