„Þið munið allir deyja“

Allir liðsmenn vígasveita Ríkis íslams sem enn eru í Mósúl munu deyja í borginni, segir sérfræðingur bandarískra stjórnvalda í málefnum Ríkis íslams, Brett McGurk. Íraksher hefur náð öllum leiðum inn í borginni og eru vígamenn samtakanna því lokaðir inni í borginni. 

Ríki íslams hefur ráðið yfir Mósúl, helsta vígi þeirra í Írak, síðan 2014. Undanfarnar vikur hefur Íraksher, sem stuðningi erlendra ríkja, gert harða hríð að borginni. Um helgina náðu þeir leiðinni að borginni úr austri á sitt vald en Bandaríkjaher veitir Íraksher aðstoð við að ná Mósúl á sitt vald. Vígamennirnir hafa því neyðst til þess að yfirgefa lykilstaði í Mósúl, þar á meðal ráðhús borgarinnar og listasafnið í Mósúl.

McGurk ræddi við fréttamenn í Bagdad, samkvæmt BBC, og segir að vígamennirnir muni allir deyja því þeir séu innilokaðir. Enginn efi sé í huga hersins um að láta ekki nægja að sigra þá í Mósúl heldur einnig að tryggja að þeir geti ekki forðað sér. 

Íraksher hefur náð um þriðjungi vesturhluta borgarinnar á sitt vald og er talið að það verði auðveldara heldur en í austurhlutanum en það tók Íraksher og bandamenn þeirra 100 daga að endurheimta þann hluta borgarinnar. 

Talið er að um 600 þúsund almennir borgarar séu enn lokaðir inni í þeim hlutum borgarinnar sem Ríki íslams ræður yfir. Íraksher fann nýverið stóra fjöldagröf við fangelsi í útjaðri borgarinnar. Talið er að þar hvíli hundruð almennra borgara sem voru teknir af lífi í fjöldaaftökum vígamanna. 

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert