Mega banna trúartákn

AFP

Fyrirtæki í ríkjum Evrópusambandsins hafa heimild til þess að banna starfsfólki sínu að ganga með trúarleg eða pólitísk tákn í vinnunni. Má þar nefna höfuðklúta múslima. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins.

Bann við sjáanlegum klæðnaði tengdum stjórnmálum, heimspeki eða trú brýtur ekki gegn ákvæðum um bann við mismunun, segir í niðurstöðu dómstólsins í Lúxemborg í dag.

En bannið verður að byggja á innanhússreglum fyrirtækja um að allir starfsmenn þess eigi að klæðast á hlutlausan hátt, segir í niðurstöðu European Court of Justice (ECJ). Ekki nægi að banna fólki að klæðast á ákveðin hátt að beiðni viðskiptavina. 

Þetta er í fyrsta ákvörðun dómstólsins varðandi höfuðklúta sem margar konur sem eru íslam-trúar ganga með. Belgískur dómstóll fór með málið fyrir ECJ en það snýst um ákvörðun fyrirtækisins G4S í Belgíu að reka konu úr starfi móttökuritara fyrir að vera með höfuðklút í vinnunni. 

Trúartákn, einkum og sér í lagi ef þau tengjast íslamtrú, hafa verið mjög í umræðunni í Evrópu. Ekki síst í máli flokksfélaga í popúlistaflokkum.

Málið sem fjallað var um er síðan árið 2003 þegar Samira Achbita, sem er íslamtrúar hóf störf í móttöku G4S öryggisvörslufyrirtækisins í Belgíu. Á þeim tíma var fyrirtækið með þá óskrifuðu reglu að starfsmenn mættu ekki ganga með nein tákn um trú, heimspeki eða stjórnmál í starfi sínu.

Árið 2006 óskaði Achbita eftir því að hún fengi að ganga með höfuðklút (hijab) í vinnunni en henni var synjað um það af hálfu fyrirtækisins. Í kjölfarið voru settar skráðar reglur um bann við trúarlegum táknum sem og heimspekilegum og stjórnmálalegum. Achbita var rekin úr starfi og hún kærði fyrirtækið fyrir mismunun.

Í dómi ECJ kemur fram að lög ESB banni mismunun á trúarlegum grunni en aðgerðir G4S byggi á því að allir starfsmenn fái sömu meðferð. Það er að bannið gildi um alla starfsmenn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert