Lögbann sett á ferðabann Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Al­rík­is­dóm­ari í Hawaii hef­ur stöðvað fram­gang ferðabanns Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta, aðeins klukku­stund­um áður en bannið, hið síðara, átti að taka gildi. Þetta sýna ný rétt­ar­gögn vest­an­hafs.

Dóm­ar­inn, Derrick Wat­son, úr­sk­urðaði að ríkið Hawaii, í lög­sókn sinni gegn til­skip­un for­set­ans, hefði sýnt fram á að mikl­ar lík­ur væru á að bannið myndi valda óaft­ur­kræf­um skaða ef það fengi fram­göngu.

Dóm­stóll­inn í Honolulu var fyrst­ur af þrem­ur dóm­stól­um til að úr­sk­urða um bannið, en fyr­ir liggja mál frammi fyr­ir al­rík­is­dóm­stól­um í Washingt­on­ríki og í Mary­land.

Úrsk­urður­inn hef­ur það í för með sér að ann­ar kafli til­skip­un­ar­inn­ar, sem lýt­ur að því að banna rík­is­borg­ur­um Írans, Líb­íu, Sómal­íu, Súd­an, Sýr­lands og Jem­ens inn­göngu í landið í 90 daga, tek­ur ekki gildi.

Þá tek­ur 6. kafli til­skip­un­ar­inn­ar held­ur ekki gildi, en hon­um er ætlað að stöðva inn­göngu flótta­manna í landið í 120 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka