Lögbann sett á ferðabann Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Alríkisdómari í Hawaii hefur stöðvað framgang ferðabanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta, aðeins klukkustundum áður en bannið, hið síðara, átti að taka gildi. Þetta sýna ný réttargögn vestanhafs.

Dómarinn, Derrick Watson, úrskurðaði að ríkið Hawaii, í lögsókn sinni gegn tilskipun forsetans, hefði sýnt fram á að miklar líkur væru á að bannið myndi valda óafturkræfum skaða ef það fengi framgöngu.

Dómstóllinn í Honolulu var fyrstur af þremur dómstólum til að úrskurða um bannið, en fyrir liggja mál frammi fyrir alríkisdómstólum í Washingtonríki og í Maryland.

Úrskurðurinn hefur það í för með sér að annar kafli tilskipunarinnar, sem lýtur að því að banna ríkisborgurum Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemens inngöngu í landið í 90 daga, tekur ekki gildi.

Þá tekur 6. kafli tilskipunarinnar heldur ekki gildi, en honum er ætlað að stöðva inngöngu flóttamanna í landið í 120 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka