Pakkinn með sprengiefninu kom frá Grikklandi

Þýski fjármálaráðherrann Wolfgang Schaeuble mætir á vikulegan ríkisstjórnarfund í dag.
Þýski fjármálaráðherrann Wolfgang Schaeuble mætir á vikulegan ríkisstjórnarfund í dag. AFP

Pakki sem innihélt sprengiefni, og fannst á skrifstofu þýska fjármálaráðherrans Wolfgang Schaeuble, var sendur frá Grikklandi. Þetta segja lögregluyfirvöld í Aþenu.

Þýska lögreglan fann pakkann í ráðuneytinu fyrr í dag, aðeins degi áður en ráðherra mun taka á móti bandaríska starfsbróður sínum, Steven Mnuchin, til viðræðna.

„Pakkinn innihélt sprengiefni,“ segir lögreglan í Berlín í tilkynningu. Er þess getið að efnið sé oft notað við framleiðslu flugelda, en pakkinn var stöðvaður í póstherbergi ráðuneytisins.

Innanríkisráðuneyti Grikklands segir yfirvöld í báðum löndunum vinna saman að rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert