Talsmaður Hvíta hússins vísaði í dag til óstaðfestra frétta fjölmiðla um að Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi í valdatíð sinni beðið bresku leyniþjónustuna GCHQ um að fylgjast með Donald Trump, til að ganga úr skugga um að það væru „engin bandarísk fingraför“.
Talsmaðurinn, Sean Spicer, vitnaði í löngu máli til fréttar sem fréttastöðin Fox hafði flutt, þar sem fullyrt var að Obama hefði notað umrædda leyniþjónustu til að koma sér hjá lagaákvæðum um eftirlit með bandarískum ríkisborgurum.
Fréttin var ein nokkurra sem Spicer sagði styðja við þá umdeildu fullyrðingu forsetans, að Obama hefði gert tilraun til að hlera síma sína.
Í bylgju tísta á samfélagsmiðlinum Twitter 4. mars sakaði Trump Obama um að hafa staðið á bak við slíkar ráðagerðir, sem myndu næstum örugglega ganga í berhögg við bandaríska löggjöf reynist ásakanirnar sannar.
Engin sönnunargögn hafa þó fundist sem stutt geta ásakanir forsetans.
Í frétt Fox, sem birtist næstum tveimur vikum síðar, fullyrti stjórnmálaskýrandinn Andrew Napolitano að þrír heimildarmenn hefðu sagt í samtali við fréttastofuna að Obama hefði farið út fyrir sína hefðbundnu valdbraut (e. chain of command) til að skipa fyrir um hleranirnar.
Tilvísun Spicers í fréttirnar, frammi fyrir helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna og fyrir framan hið virta innsigli forsetans, olli því að einhverjir hnykluðu brýnnar í höfuðstöðvum leyniþjónustunnar í Cheltenham, sem átt hefur í nánu samstarfi við bandaríska starfsbræður sína í fleiri áratugi.