Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur komið Twitter-notkun sinni til varnar og sagt að hugsanlega væri hann ekki forseti ef það væri ekki fyrir samfélagsmiðilinn.
Twitter-færslur forsetans hafa vakið athygli en hann tístir bæði oft og stundum er hann mjög æstur í færslum sínum. Í viðtali við Fox News í gær sagði Trump að Twitter gerði honum kleift að „sneiða framhjá óheiðarlegum fjölmiðlum“ en forsetinn er jafnframt duglegur við að gagnrýna fjölmiðla á Twitter.
It is amazing how rude much of the media is to my very hard working representatives. Be nice, you will do much better!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 13, 2017
„Ég fæ svo vitlausa og óheiðarlega umfjöllun,“ sagði Trump og nefndi sérstaklega fréttastofuna CNN og þrjár stærstu bandarísku fréttastofurnar, ABC, CBS og NBC í því samhengi. Trump vildi hinsvegar ekki gagnrýna Fox News og sagði fréttastofuna hafa verið sanngjarna gagnvart sér.
„Stór hluti fjölmiðla eru óheiðarlegir. Ég er með næstum því 100 milljónir fylgjenda á Twitter, Facebook og Instagram,“ sagði hann. „Ég er með mína eigin fjölmiðla.“
Forsetinn er með rúmlega 26 milljónir fylgjendur á Twitter og talar hann fallega um samfélagsmiðilinn. „Þegar ég segi eitthvað, hafa fjölmiðlar ekki rétt eftir mér. Twitter er frábært fyrir mig.“
Það vakti mikla athygli fyrr í mánuðinum þegar Trump hélt því fram á Twitter að Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefði komið hlerunarbúnaði fyrir í Trump turninum í New York þar sem Trump bjór áður en hann flutti í Hvíta húsið.
Engar sannanir hafa fundist sem styðja mál forsetans en málið er í rannsókn af sérstakri þingnefnd. Trump sagði hinsvegar í samtali við Fox News að Hvíta húsið myndi birta sannanir „mjög fljótlega“.