Bandaríkjaher hefur staðfest að hann hafi gert loftárásir í Sýrlandi í gær en neitar að þeim hafi verið beint að mosku. 46 létust í árásinni.
Herinn segir að árásunum hafi verið beint á fund liðsmanna Al-Qaeda en að sögn mannúðarsamtakanna Syrian Observatory for Human Rights eru flestir þeirra sem létust í árásinni almennir borgarar. Árásin var gerð á bæinn Al-Jineh sem er í Aleppo-héraði.
Frá árinu 2014 hefur Bandaríkjaher tekið þátt í loftárásum á Sýrland en hundruð Sýrlendinga og Íraka hafa látist í árásunum.
John J. Thomas, talsmaður Bandaríkjahers, staðfestir loftárásirnar en segir að húsið sem árásirnar hafi beinst að sé um 15 metra frá moskunni. Þar hafi liðsmenn hryðjuverkasamtakanna verið á fundi þegar árásin var gerð. Thomas segir að moskan hafi staðið af sér árásina. Hryðjuverkamenn hafi fallið í árásinni. Ásakanir um að almennir borgarar hafi látist í árásinni verði rannsakaðar.
Fréttamaður AFP sá félaga í björgunarsveitinni Hvítu hjálmarnir að störfum í húsarústum í bænum. Stór hluti moskunnar hrundi og er bænasalurinn þakinn steypubrotum. Verið er að leita í rústunum hvort einhverjir séu enn á lífi þar sem kveinstafir hafa heyrst undan rústunum.
Yfirmaður Obervatory, Rami Abdel Rahman, segir að yfir 100 hafi særst í árásinni og enn sé fólk fast undir rústum moskunnar í Al-Jineh.
Abu Muhammed, sem býr í þorpinu, segir í samtali við AFP að hann hafi heyrt háværa sprengingu þegar sprengju var varpað á moskuna. Árásin var gerð skömmu eftir bænatíma en fjölmargir voru enn í moskunni. „Ég sá 15 lík og marga líkamsparta í rústunum þegar ég kom. Við þekktum ekki einu sinni hverjir þetta voru.“