Afdrifarík átök í háloftunum

Fjórar herþotur Ísraela fóru inn í lofthelgi Sýrlands í nótt …
Fjórar herþotur Ísraela fóru inn í lofthelgi Sýrlands í nótt og gerðu árásir á skotmörk. Hér má sjá orrustuþotu af gerðinni MiG-23 sem Sýrlandsher hefur yfir að ráða. AFP

Ísraelskar herþotur gerðu árás á nokkur skotmörk í Sýrlandi í nótt og uppskáru hefndarárásir Sýrlandshers að launum. Um er að ræða alvarlegasta atburð í samskiptum landanna tveggja frá því að stríðið í Sýrlandi braust út fyrir sex árum. 

Sýrlenski herinn hélt því fram í morgun að hann hefði grandað einni ísraelskri herþotu og hæft aðra. Hafi sú flugskeytaárás hrakið aðrar þotur á braut. Átökin í háloftunum áttu sér stað í nágrenni borgarinnar Palmyra sem sýrlandsher náði aftur á sitt vald úr klóm vígamanna Ríkis íslams í upphafi mánaðarins.

Ísraelsher hafnar þessu og segir að engin þota hafi verið skotin niður eða orðið fyrir skoti. Sýrlandsher hefur áður haldið svipuðu fram.

Talsmaður ísraelska hersins segir að öryggi ísraelskra hermanna og borgara hafi ekki verið ógnað í aðgerðunum í nótt. 

Engu að síður telja sérfræðingar að atburðurinn gæti dregið dilk á eftir sér og breytt viðhorfi sýrlenskra stjórnvalda í garð þeirra ísraelsku. Þau segja að þoturnar hafi komið án leyfis inn í lofthelgina og gert árásir á hernaðarleg skotmörk. 

Ísraelska varnarkerfið er talið hafa verið notað í nótt í …
Ísraelska varnarkerfið er talið hafa verið notað í nótt í fyrsta skipti. Það er á Golan-hæðum, á landamærunum að Sýrlandi og er ætlað að nema og eyða flugskeytum. AFP

Sjaldgæf játning um árás

Ísraelski herinn leynir því ekki að hann hafi gert árásir í Sýrlandi. Hann hafi sent fjórar þotur á svæðið í gegnum lofthelgi Líbanons. Slík játning er að mati sérfræðinga óvenjuleg. 

Í apríl á síðasta ári viðurkenndi Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels að her landsins hefði gert árásir á nokkrar bílalestir í Sýrlandi sem taldar voru flytja vopn ætluð Hezbollah-hreyfingunni í Líbanon. Skæruliðar Hezbollah háðu blóðugt stríð við Ísraela árið 2006. Þær sveitir eru nú sagðar berjast við hlið hermanna Sýrlandsforseta. 

Hingað til hafa Ísraelar yfirleitt hvorki játað né neitað ásökunum um loftárásir. Í dag voru aðstæður þó þannig, vegna yfirlýsinga Sýrlandshers, að hjá því var ekki komist. 

Kalt stríð í árafjöld

Ísrael og Sýrland eiga tæknilega séð enn í stríði þó að yfirleitt hafi allt verið með kyrrum kjörum á landamærum ríkjanna í áratugi eða allt þar til stríðið í Sýrlandi braust út.

Assaf Orion, sérfræðingur við stofnun Ísraels í þjóðaröryggisfræðum, Institute for National Security Studies, segir að viðbrögð Sýrlendinga við árásum Ísraela breyti stöðunni gríðarlega. Hingað til hafa árásir Ísraela á bílalestir Hezbollah verið látnar óáreittar. 

„Með þessari árás eru stjórnvöld í Sýrlandi að reyna að segja Ísraelum að þau þoli þetta ekki lengur og að slíkum árásum verði svarað,“ segir Orion í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Staða Bashars al-Assad Sýrlandsforseta hefur styrkst á undanförnum mánuðum. Herir hans hafa náð betri stöðu víða, m.a. í Aleppo og Palmyra. Þá njóta þeir stuðnings Rússa í hernaði sínum. 

Orion segir að Assad sé því sjálfsöruggari nú en áður, honum finnst hann ekki lengur „horfa ofan í byssuhlaup“ og að framtíðin sé bjartari. „Hann er að segja: „Ekki ögra mér. Staða mín er ekki eins veik og áður“,“ segir Orion.

Bitust um Golan-hæðir

Yaakov Amidror, fyrrverandi formaður þjóðaröryggisráðs Ísraels, segir að bílalestir Hezbollah, sem njóta stuðnings Írana, verði áfram skotmörk Ísraela. 

Deilur Ísraels og Sýrlands eru ekki nýjar af nálinni. Árið 1967 náðu Ísraelar til sín bróðurpartinum af Golan-hæðum af Sýrlendingum í hinu svokallaða sex daga stríði. Þeir sölsuðu svo undir sig meira landsvæði árið 1981. Sá gjörningur hefur aldrei verið viðurkenndur af alþjóðasamfélaginu.

Ísraelar fylgjast grannt með gangi mála í stríðinu í Sýrlandi. Þeir óttast að erkifjendur þeirra, Íranar, noti tækifærið og styrki tengsl sín við Sýrlandsstjórn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert