Engar vísbendingar eru um að fylgst hafi verið með heimili Donald Trump Bandaríkjaforseta, Trump Tower fyrir forsetakosningarnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá öldungadeild Bandaríkjaþings en Trump hefur haldið því fram að Barack Obama hafi látið hlera hann.
Líkt og fram kom á mbl.is í gærkvöldi þá vísaði talsmaður Hvíta hússins til óstaðfestra frétta fjölmiðla um að Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi í valdatíð sinni beðið bresku leyniþjónustuna GCHQ um að fylgjast með Donald Trump. Breska leyniþjónustan (GCHQ) hefur neitað þessu líkt og Obama og margir af helstu flokksbræðrum Trumps á Bandaríkjaþingi. Segir talsmaður GCHQ fréttir þar að lútandi vera fáránlegt bull.
Trump hefur haldið því ítrekað fram að hann hafi verið hleraður í kosningabaráttunni en yfirlýsing sem formaður og varaformaður leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings sendu frá sér í nótt kemur fram að engar upplýsingar séu til sem styðja við ásakanir Trump á Twitter 4. mars. Undir yfirlýsinguna rita repúblikaninn, Richard Burr, sem er formaður nefndarinnar og demókratinn Mark Warner sem er varaformaður hennar.
Þeir segja þetta byggja á öllum þeim upplýsingum sem leyniþjónustunefndin hefur undir höndum. Þar sé ekkert að finna um að fylgst hafi verið með Trump turninum af hálfu bandarískra yfirvalda hvorki fyrir né eftir kjördag í fyrra.
Yfirlýsingin er í takt við yfirlýsingu sem leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sendi frá sér í gær. Í gær sagði Paul Ryan, sem er forseti fulltrúadeildarinnar að engin gögn séu um hleranir. Í viðtali við CNN í gær sagði hann að lygarnar myndu samt ekki draga úr trúverðugleika Trump.
„Ég tel að forsetans verði minnst og hann dæmdur fyrir eigin gjörðir,“ segir hann.
Í viðtali við Fox seint á miðvikudagskvöldið er Trump spurður út í það hvernig hann hafi komist að eftirlitinu segist hann hafa lesið margar fréttir þar að lútandi. Hann ítrekaði að þrátt fyrir að hafa talað um símahleranir þá séu símahleranir gamaldags. En það nái samt undir eftirlit og margt annað. Talsmaður Hvíta hússins, Sean Spicer, segir að forsetinn standi við mál sitt og það komi skýrt fram í máli forsetans í viðtalinu við Fox hvað hann eigi við.
Þegar Trump hafi talað um hleranir þá hafi hann átt við eftirlit. Þessu hafa hins vegar leyniþjónustunefndir Bandaríkjaþings hafnað með yfirlýsingum sínum.
Spicer vísaði í fréttir, sem ekki hafa fengist staðfestar, um að Obama hafi fengið bresku leyniþjónustustofnunina, GCHQ, til þess að fylgjast með Trump.
Í fréttinni sem Spicer vísar til heldur Andrew Napolitano því fram að þrír heimildarmenn hans innan leyniþjónustunnar hafi upplýst Fox News um að Obama hafi leitað út fyrir valdsvið sitt með fyrirskipun um hleranir. Talsmaður GCHQ segir ásakanirnar gjörsamlega fáránlegar og ekki svaraverðar. Fréttir fjölmiðla um að GCHQ hafi verið beðin um að hlera þáverandi forsetaframbjóðanda eru bull, segir talsmaður GCHQ í samtali við AFP fréttastofuna.
Þessir hafna ásökunum Trump um hleranir: