George Osborne, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, verður næsti ritstjóri breska dagblaðsins London Evening Standard. Eigandi blaðsins, Evgeny Lebedev, greindi frá ráðningunni á Twitter í morgun en fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.
Þar segir að búist sé við að Osborne taki við sem ritstjóri í maí af Sarah Sands sem hefur ráðið sig til breska ríkisútvarpsins BBC. Osborne hyggst gegna áfram þingmennsku samhliða ritstjórastarfinu að því er segir í fréttinni. Ennfremur er haft eftir heimildarmanni hjá London Evening Standard að starfsfólki blaðsins hafi brugðið við fréttirnar.
Osborne lét af embætti fjármálaráðherra í kjölfar þjóðaratkvæðisins síðasta sumar um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Hann studdi áframhaldandi aðild að sambandinu en meirihluti kjósenda var á annarri skoðun. Eftir að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tók við embætti í kjölfar atkvæðagreiðslunnar lét hún Osborne taka pokann sinn.
Ráðherrann fyrrverandi hafði áður tekið að sér hlutastarf sem ráðgjafi hjá stærsta fjárfestingafélagi heimsins, Blackrock.