Þýskaland skuldi NATO gífurlegar fjárhæðir

Trump og Merkel á fundi þeirra í gær.
Trump og Merkel á fundi þeirra í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar Þýskaland um að skulda Atlantshafsbandalaginu „gífurlegar fjárhæðir“ og segir að stjórnvöld í Berlín ættu að borga Bandaríkjunum meira fyrir varnarmál, aðeins degi eftir fund sinn með Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Leiðtogarnir tveir virtust ósammála um öll helstu umræðuefnin á fundi þeirra í gær, þar á meðal málefni NATO og útgjöld til varnarmála. Trump er því ekki sammála og segir hann fundinn hafa verið frábæran. Til að tjá sig greip hann eins og oft áður til Twitter:

Trump lét boð um handaband sem vind um eyru þjóta …
Trump lét boð um handaband sem vind um eyru þjóta í gær. AFP

Gaf tóninn á síðasta ári

Á sameiginlegum blaðamannafundi með Merkel í gær heimtaði Trump, sem hefur gagnrýnt Atlantshafsbandalagið og fullyrt að það sé úrelt, að bandamenn Bandaríkjanna í hernaðarbandalaginu borguðu til baka „gífurlegar fjárhæðir frá fyrri árum“.

Merkel sagði þá að Þýskaland hefði skuldbundið sig til að auka hernaðarútgjöld upp í tvö prósent af þjóðarframleiðslu, sem áður hafði verið samþykkt að Evrópulönd NATO gerðu.

Trump gaf tóninn fyrir samskipti sín við Merkel í framboði sínu á síðasta ári, þar sem hann fullyrti að ákvörðun hennar um að hleypa flóttamönnum inn í Þýskaland væri „hörmuleg mistök“ og gaf í skyn að hún væri að „rústa Þýskalandi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert