Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, segir að Rússar getið leikið mikilvægt hlutverk í þeim deilum sem hafa orðið eftir að skotið var á ísraelskar herþotur er þær gerðu loftárásir á nokkur skotmörk í Sýrlandi.
„Rússar geta haft sitt að segja til að fá Ísraela til að hætta árásum á Sýrland,“ sagði Assad við rússneska blaðamenn.
„Ég held að Rússland geti leikið stórt hlutverk í þessum efnum.“
Utanríkisráðuneyti Rússlands kallaði sendiherra Ísraels í landinu á sinn fund vegna loftárásanna, sem voru gerðar skammt frá hersveitum Rússa í sýrlensku borginni Palmyra.
Ísraelski herinn segir að loftárásunum hafi verið beint að vopnum sem Hezbollah-hreyfingin í Líbanon átti að fá. Hreyfingin styður stjórnvöld í Sýrlandi.
Assad hélt áfram og sagði að „hvers kyns hernaðaraðgerð í Sýrlandi sem er ekki gerð með samþykki sýrlensku ríkisstjórnarinnar er ólögleg.“
„Ef það eru einhverjar hersveitir á sýrlensku landsvæði kallast það innrás,“ bætti hann við og sagði það rétt og skyldu hverrar þjóðar að verja landamæri sín.