Rússneskir glæpamenn, með tengsl við bæði rússnesk stjórnvöld og leyniþjónustuna, hafa notað marga af stærstu bönkum heims til peningaþvættis. Um þetta er fjallað í fjölmiðlum víða um heim í dag. Breska dagblaðið Guardian segir m.a. að breskir bankar hafi verið nýttir til að þvo fjármuni að andvirði 740 milljónir dollara.
Guardian segir bankana HSBC, Royal Bank of Scotland, Lloyds, Barclays og Coutts vera meðal þeirra 17 banka sem starfræktir séu í Bretlandi sem nú séu krafðir svara um vitneskju sína um málið og af hverju þeir hafi ekki hafnað grunsamlegum peningafærslum.
Gögnin sem Guardian hefur sýna að fjármunir að andvirði 20 milljarðar dollara virðast hafa verið fluttir frá Rússlandi á árabilinu 2010-2014. Rannsakendur sem nú skoða færslurnar telja endanlega upphæð fjárflutninganna þó kunna að vera mun hærri og að andvirði þeirra geti jafnvel numið allt að 80 milljörðum dollara.
Einn þeirra rannsakanda sem Guardian ræddi við sagði féð „augljóslega annaðhvort stolið eða að það ætti rætur sínar í glæpastarfsemi“.
Rannsóknin hefur fengið heitið „the Global Laundromat“ sem útleggja má sem „alþjóðlega þvottahúsið“ og eru rannsakendur að reyna að bera kennsl á þá efna- og áhrifamenn í rússneskum stjórnmálum taldir eru standa að baki peningaþvættinu.
Talið er að hópur um 500 manna standi að peningaþvættinu og í hópnum sé að finna rússneska óligarka, bankamenn í Moskvu, sem og einstaklinga sem ýmist starfa fyrir eða hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna FSB.
Frændi Vladimír Pútins Rússlandsforseta, Ígor Pútin, er þá sagður eiga sæti í stjórn eins þeirra rússnesku banka sem tekið hafa þátt í svikunum.
Fyrirtæki sem skráð eru í Bretlandi hafa leikið stórt hlutverk í peningaþvættinu. Í flestum tilfellum er raunverulegt eignarhald þessara fyrirtækja dulið bak við slóð aflandsfélaga.
Gögnunum, sem Global Laundromat-rannsóknin byggir á, var komið til rússneska dagblaðsins Nowaja Gaseta og samtakanna OCCRP sem fjalla um spillingu og skipulagða glæpastarfsemi. OCCRP deildi gögnunum síðan með Guardian og fjölmiðlum í 32 ríkjum.
Alls er að finna upplýsingar um 70.000 bankafærslur í gögnunum, sem m.a. fóru í gegnum banka í Bretlandi og Bandaríkjunum. Guardian segir gögnin m.a. byggja á sönnunargögnum sem lögregluyfirvöld í Lettlandi og Moldóva hafi aflað í þriggja ára rannsókn á peningaþvætti.
Slóðin lá þar frá bönkum, sem höfðu slæmt orð á sér vegna gruns um peningaþvætti, til 96 landa og nets fyrirtækja með dulið eignarhald. Flest fyrirtækin eru skráð hjá Companies House í London og segir Guardian að í kjölfar rannsóknarinnar hafi ríflega 20 þeirra verið leyst upp.
Umfang peningaþvættisins er sagt hafa komið lögregluyfirvöldum verulega á óvart, en þegar eingöngu sé horft til Bretlands sýni gögnin að millifærslur að andvirði 738 milljónir dollara sem tengist rússneskri glæpastarfsemi hafi farið þar í gegn.
Alls fóru 545,3 milljónir dollara í gegnum HSBC-bankann, að mestu í gegnum Hong Kong-útibú bankans og 113,1 milljón fór í gegnum Royal Bank of Scotland, sem er að stærstum hlut í eigu breska ríkisins. Þá fóru 63,7 milljónir dollara í gegn hjá Citibank í Bandaríkjunum og 14 milljónir dollara hjá Bank of America.
Blaðamenn Guardian báru færslurnar undir bankana, sem neituðu þeim ekki, en sögðu upplýsingaflæði á milli einkafyrirtækja og opinberra stofnana oft vera ábótavant. Þeir lýstu sig þó reiðubúna að berjast gegn fjármálaglæpum og peningaþvætti.