„Pútín hataði Clinton svo mikið“

Comey við skýrslugjöfina í gærdag.
Comey við skýrslugjöfina í gærdag. AFP

Það varð Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, reiðarslag þegar James Comey, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, staðfesti frammi fyrir þingmönnum Bandaríkjaþings að verið væri að rannsaka tengsl forsetaframboðs hans við stjórnvöld í Rússlandi.

Mikið var undir í skýrslugjöf Comey sem sjónvarpað var beint frá Bandaríkjaþingi í gærdag. Það mátti líka sjá á þeim ummælum sem forsetinn lét falla á Twitter þegar líða fór að henni.

Meðal annars sakaði hann demókrata um að vera á bak við fregnir um tengsl hans við Rússa.

Reiðarslaginu fylgdi annað högg

Ef Comey sá fullyrðingar forsetans þá lét hann þær að minnsta kosti sem vind um eyru þjóta þegar hann kom fyrir þingmennina. Steig hann það ótrúlega skref að staðfesta að alríkislögreglan hefði til rannsóknar hvort starfsmenn í framboðshópi Trumps hefðu lagt á ráðin með fulltrúum rússnesku ríkisstjórnarinnar, til að reyna að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna.

Forstjórinn neitaði að svara spurningum þingmanna um að hverju og hverjum rannsóknin beinist, og vísaði til þess að hann þyrfti að verja hagsmuni þessarar viðkvæmu rannsóknar.

En hann staðfesti að í henni felst rannsókn á hvers kyns tengsl hafi verið á milli einstaklinga, sem tengdir voru forsetaframboði Trumps, og rússnesku ríkisstjórnarinnar, og hvort einhvers konar samhæfing hefði átt sér stað þeirra á milli.

Þessu reiðarslagi fylgdi um leið annað högg, þegar Comey tók af öll tvímæli um að fullyrðingar forsetans, þess efnis að samskipti hans hefðu verið hleruð af forvera hans í embætti, Barack Obama, ættu við engin rök að styðjast.

„Dómsmálaráðuneytið hefur beðið mig um að deila því með ykkur að svarið er það sama fyrir ráðuneytið og allar einingar þess. Ráðuneytið hefur engar upplýsingar sem styðja við þessi tíst,“ bætti Comey við.

Hægt er að smella á myndina til að stækka.
Hægt er að smella á myndina til að stækka.

Rannsókn hófst í júlí

Að minnsta kosti fjórar aðskildar rannsóknir eru nú í gangi á Bandaríkjaþingi, sem beinast að mögulegri íhlutun Kremlar í forsetakosningunum. Forstjórar bandarískra leyniþjónustna fullyrtu í janúar að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði leitt herferð gegn Hillary Clinton, keppinaut Trumps, með það að markmiði að færa Trump sigur í kosningunum.

Comey sagði þá rannsókn á íhlutun Rússlands hafa hafist í júlí á síðasta ári, þegar ríkisstjórnin varð þess fyrst var að brotist hefði verið inn í tölvupósta stjórnar Demókrataflokksins.

„Pútín hataði Clinton svo mikið að hin hliðin á peningnum var að við blasti, sem mun betri valkostur, keppinauturinn gegn þeirri persónu sem hann hataði svo mikið,“ sagði Comey. 

„Þeir vildu meiða lýðræðið okkar, meiða hana, hjálpa honum. Ég held að þetta allt þrennt höfum við verið fullviss um strax í desember.“

Sagði ekkert hafa breyst

En tregða Comey til að segja frá frekari smáatriðum rannsóknarinnar gaf Hvíta húsinu rými til að verja stöðu sína - sem er sú að öll þessi umræða sé spunnin upp af andstæðingum Trumps til að grafa undan valdi hans.

Eftir skýrslugjöfina sagði talsmaðurinn Sean Spicer við blaðamenn: „Eftir þennan vitnisburð er það augljóst að ekkert hefur breyst. Háttsettir embættismenn leyniþjónustna hafa sagt opinberlega að engin sönnunargögn séu um samráð Trumps og Rússlands,“ sagði Spicer.

„Að rannsaka og að hafa sönnun er tvennt mismunandi.“

Spurður hvort Trump muni draga ásakanir sínar til baka gagnvart Obama, og biðja hann afsökunar, sagði Spicer að rannsókn væri „enn í gangi“ hvað það varðar.

Hart er sótt að Bandaríkjaforsetanum um þessar mundir.
Hart er sótt að Bandaríkjaforsetanum um þessar mundir. AFP

Kalla eftir sjálfstæðri rannsókn

Skýrslugjöf Comey hefur gert flestum ljóst að spurningin um rússneska íhlutun í kosningunum mun áfram valda ríkisstjórn Trumps vandræðum.

Þingnefndir beggja deilda Bandaríkjaþings munu á næstu vikum halda fleiri opinberar yfirheyrslur, ásamt lokuðum fundum með Comey og öðrum forstjórum leyniþjónustna til að ræða um þau trúnaðargögn sem rannsóknunum fylgja.

En demókratar hafa lýst áhyggjum sínum um að Hvíta húsið og repúblikanar á þingi muni reyna að kæfa málið. Kalla þeir eftir sjálfstæðri rannsókn.

„Ég tel að við myndum græða á vinnu sjálfstæðrar nefndar sem gæti beint kröftum sínum og starfsfólki, sem við búum ekki yfir, að þessari rannsókn,“ sagði Adam Schiff, hæst setti demókratinn í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar, í gær.

„Nefndar sem gæti verið algjörlega án nokkurra pólitískra hagsmuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka