Áætlanir Ríkis íslams ástæða raftækjabanns

Vél Emrirates-flugfélagsins býr sig til lendingar í Los Angeles eftir …
Vél Emrirates-flugfélagsins býr sig til lendingar í Los Angeles eftir flug frá Dubai. Emirates er meðal þeirra flugfélaga sem bannið tekur til. AFP

Kveikjan að banninu við raftækjum sem eru stærri en farsími í farangursrými flugvéla byggir á upplýsingum njósnastofnana sem gefa til kynna hryðjuverkaógn á vissum flugleiðum til Bandaríkjanna.

Banda­rík­in og Bret­land hafa bannað stærri raf­tæki, m.a. fartölvur, um borð í farþega­flug­vél­um sem fljúga frá sum­um flug­völl­um í Tyrklandi, Mið-Aust­ur­lönd­um og Norður-Afr­íku.

Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar hefur eftir heimildamanni að hryðverkasamtökin Ríki íslams hafi undanfarið unnið að því að finna leiðir til að smygla sprengiefni um borð í flugvélar með því að fela það í raftækjum.

Ábendingin var metin trúverðug og  byggð á sönnunum að mati bandarískra yfirvalda.

Banda­rík­in hafa veitt níu flug­fé­lög­um frá átta lönd­um frest til næstu helg­ar til að láta farþega til Banda­ríkj­anna pakka niður far­tölv­um, iPod­um og tölvu­spil­um í far­ang­ur­stösk­ur sín­ar sem fara ekki farþega­rýmið. Bannið nær hins vegar ekki til farsíma eða læknisbúnaðar.

„Ný ógn gegn flugi“

Rex Tillerson utanríkisráðherra heldur nú fund með ráðherrum og hátt settum embættismönnum 68 ríkja til að ræða ógnina sem talin er stafa af Ríki íslams.

Demókrataþingmaðurinn Eric Swalwell, sem á sæti í njósnanefnd Bandaríkjaþings, sagði í samtali við ABC að „ný ógn gegn flugi“ væri komin upp.

„Við vitum að andstæðingar okkar, hryðjuverkahópar bæði innan Bandaríkjanna og utan, leita leiða til að ná niður flugvélum sem eru á leið til Bandaríkjanna. Þetta er með verðmætustu skotmörkum sem þeir ná og við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að það gerist,“ sagði Swalwell.

Repúblikanaþingmaðurinn Peter King, sem einnig á sæti í nefndinni, sagði í viðtali við New York Times að hann hefði frétt af banninu áður en það var tilkynnt.

„Það byggir á nýlegum njósnaskýrslum. Upplýsingum um nokkuð sem hefur mögulega þegar verið skipulagt,“ sagði King.

Fréttavefur BBC segir hömlurnar byggja á upplýsingum sem þyki nokkuð traustar. Það þykir benda til þess að annaðhvort hafi bandaríska leyniþjónustan náð að hlera samræður um mögulega árás eða að hún hafi fengið fréttirnar frá einum uppljóstrara sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert