Skotárás var gerð við breska þingið rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Lögreglan skaut mann sem var vopnaður hnífi og hafði ráðist á fólk. Fjórir hafa látist í árásinni. Að minnsta kosti tuttugu manns eru særðir.
Lögreglumaður í breska þinginu var stunginn og skaut lögreglan meintan árásarmann eftir það, að sögn BBC. Vitni segjast hafa heyrt að minnsta kosti þrjú til fjögur byssuskot.
Í viðtali við SkyNews sagði vitni að jeppabifreið hefði keyrt á gangandi manneskju og því næst á grindverk rétt við þinghúsið. Bílstjórinn flúði í kjölfarið af vettvangi. Talið er að fjölmargir hafi særst. Vitni segja að minnsta kosti fimm manns hafi legið á götunni eftir að keyrt var á það.
Útlit er fyrir að nokkrar árásir hafi verið gerðar á sama tíma á svæðinu þar sem keyrt var inn í mannfjölda á einum stað þar sem nokkrir lágu óvígir eftir. Í annarri götu skammt frá voru að minnsta kosti tveir einstaklingar særðir og stutt frá því var bifreið keyrt inn í girðingu.
Ekki er vitað á þessari stundu hvort einn og sami maðurinn hafi verið að verki. Hins vegar grenir SkyNews frá því að ökumaður bílsins sem keyrði inn í mannfjölda á Westminsterbrúnni hafi hlaupið inn í þinghúsið vopnaður hnífi en lögreglan stöðvaði hann með fyrrgreindum afleiðingum.
Vitni segja að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi verið komið inn í bíl stuttu eftir að lögreglan birtist á svæðinu, að sögn Independent. Í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér stuttu síðar kemur fram að May sé óhult.
SkyNews hefur eftir vitni sem segist hafa séð svartklæddan mann af asískum uppruna, líklega um fimmtugt, vopnaðan hnífi við þinghúsið á sama tíma og árásin var gerð.
Fjölmargar fréttir berast af atburðinum og enn sem komið er er atburðarásin óljós.
Neðri deild þingsins hefur einnig verið rýmd.
Lögreglan hefur beðið starfsfólk þingsins um að halda sig inni í byggingunni. BBC greinir frá.
Lokað hefur verið fyrir allar samgöngur um Westminsterbrúna.
Fréttin verður uppfærð.
Daily mail sýnir beint frá vettvangi hér fyrir neðan.