Ráðherra reyndi að bjarga lögregluþjóni

Eitt af fórnarlömbum árásarinnar flutt í sjúkrabíl.
Eitt af fórnarlömbum árásarinnar flutt í sjúkrabíl. AFP

Tobias Ellwood, undirráðherra í utanríkisráðuneyti Bretlands, veitti lögregluþjóni, sem var stunginn í árásinni við þinghúsið í London í dag, fyrstu hjálp og beitti munn við munn aðferð. SkyNews greinir frá. 

Myndir af Ellwood, sem er fyrrverandi hermaður, náðust þegar hann reyndi allt hvað hann gat til að bjarga lífi lögregluþjónsins við þinghúsið en án árangurs. Ellwood varð sjálfur blóðugur við björgunaraðgerðirnar sem lögreglumenn og bráðaliðar tóku einnig þátt í. Árásarmaðurinn hafði náð að særa lögreglumanninn til ólífis en var sjálfur skotinn til bana stuttu síðar. 

Að minnsta kosti fjórir létu lífið og 20 manns særðust í árásinni, þar af þrjú frönsk skólabörn. 

Sjónarvotturinn Hugh Dickinson birti myndirnar á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka