Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti varaði Evrópubúa í dag við ógninni á að geta sér ekki frjálst um höfuð strokið neins staðar í heiminum, en lítil merki eru um þíðu í samskiptum Tyrkja og ríkja Evrópusambandsins.
„Ef þið haldið áfram að haga ykkur svona mun enginn Evrópubúi eða Vesturlandabúi geta sér frjálst um höfuð strokið á götum hvar sem er í heiminum,“ sagði Erdogan í ræðu sem hann flutti í Ankara, höfuðborg Tyrklands.
Forsetinn útskýrði orð sín ekki nánar, en virðist að sögn AFP-fréttastofunnar vera að gefa í skyn að Evrópubúar hætti á að hljóta sömu viðtökur sjálfir og þeir veita Tyrkjum og múslimum að hans mati.
Mikið frost hefur verið í samskiptum ESB-ríkja og Tyrklands frá því að tyrkneskum ráðherrum var synjað um að halda kosningafundi í Evrópu vegna væntanlegra stjórnarskrárkosninga í Tyrklandi í næsta mánuði. Stjórnarskrárbreytingunum er ætlað að auka vald Erdogans.
Erdogan sagði á þeim tíma að slík hegðun minnti mest á Þýskaland nasismans og að vaxandi hatur í garð múslima í Evrópu sé líka áhyggjuefni.
Varaði hann við því að Tyrkland væri ekki land sem ESB vildi styggja. Heimurinn fylgdist grannt með gjörðum Evrópu. „Mjög náið,“ sagði Erdogan. „Við Tyrkir hvetjum Evrópu til að virða lýðræði, mannréttindi og frelsi.“