Talið er að maðurinn, sem varð fjórum að bana og særði yfir fjörutíu til viðbótar er hann ók bíl eftir gangstétt og að breska þinghúsinu, hafi verið einn að verki.
Breska lögreglan hefur enn ekki nefnt manninn á nafn, né heldur gefið upp hverrar þjóðar hann er að sögn fréttavefjar BBC. Mark Rowley, yfirmaður hjá Scotland Yard, segir lögreglu þó telja sig vita hver árásarmaðurinn er og að grunsemdir séu uppi um að fyrirmynd árásarinnar sé sótt í árásir tengdar íslömskum öfgatrúarhópum.
Rannsókn lögreglu beindist nú að því hverjar ástæður árásarmannsins hafi verið, hvaða undirbúningur hafi legið þar að baki og hverjir mögulegir vitorðsmenn hans séu. Hundruð lögreglumanna vinni að rannsókn málsins og hafi verið að störfum í alla nótt.
Fréttavefur Guardian segir það, hversu lítill undirbúningur virðist liggja að baki árásinni, við fyrstu skoðun benda til þess að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafi takmarkað net samstarfsmanna í Bretlandi.
Þá sé ströng byssulöggjöf og hversu lítill svarti markaðurinn með slík vopn er í Bretlandi mögulega ein ástæða þess að ekki hefur komið til fleiri mannskæðra hryðjuverkaárása í landinu. Nefnir Guardian máli sínu til stuðnings mannskæðar byssuárásir sem einstaklingar hafa framið í nafni Ríkis íslams annars staðar.
Fréttastofa Sky-sjónvarpsstöðvarinnar greindi þá frá því að vopnuð lögregla hefði lokað af nokkrum götum í borginni Birmingham nú í morgun og gert þar húsleit og handtekið nokkra einstaklinga. Lögregla hefur hins vegar ekkert viljað gefa upp um tilefni húsleitarinnar, en vísar öllum fyrirspurnum á Lundúnalögregluna.
Rowley greindi einnig frá nafni lögreglumannsins sem lést í árásinni. Hann hét Keith Palmer og var 48 ára eiginmaður og faðir. Hann hafði starfað í lögreglunni í fimmtán ár.
Ekki hafa enn verið gefin upp nöfn annarra sem létust, en þrjú frönsk skólabörn og fimm Suður-Kóreumenn voru á meðal þeirra sem særðust er árásarmaðurinn ók inn í mannfjöldann.