Átta hafa verið handteknir í tengslum við hryðjuverkaárásina í London í gær, þar sem maður varð þremur að bana og særði yfir fjörutíu til viðbótar er hann ók bíl eftir gangstétt og að breska þinghúsinu.
Vopnuð lögregla lokaði af nokkrum götum í borginni Birmingham nú í morgun og gerði þar húsleit. Voru handtökurnar gerðar í kjölfar húsleitanna að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Sky-fréttastofan sem greindi fyrst frá húsleitinni, hefur eftir vitni sem vinnur í nágrenni Hagley Road að árásarmaðurinn hafi búið í húsi í götunni þar sem leitað var. „Maðurinn frá London bjó hérna. Þeir komu og handtóku þrjá menn,“ sagði hann.
Mark Rowley, yfirmaður hjá Scotland Yard, segir hundruð lögreglumanna hafa unnið í nótt að rannsókn málsins og að húsleit hafi verið gerð á sex stöðum og sjö hafi verið handteknir. Þá sagði hann þrjá hafa látist í árásinni, utan árásarmannsins sem felldur var af lögreglu, en Rowley hafði áður sagt fjóra hafa farist.
„Rannsóknin í Birmingham, London og öðrum hlutum landsins er enn í gangi,“ sagði Rowley í yfirlýsingu sem hann gaf fyrir utan höfuðstöðvar Scotland Yard.
„Það er enn trú okkar – og rannsóknin hefur til þessa styrkt hana – að þessi árásarmaður hafi verið einn að verki og að fyrirmyndin sé sótt í alþjóðlegar hryðjuverkaárásir. Við höfum heldur ekki, til að vera alveg skýr, upplýsingar á þessum tímapunkti sem benda til frekari ógna við almenning.“
Greint hefur verið frá nafni lögreglumannsins sem lést í árásinni. Hann hét Keith Palmer og var 48 ára eiginmaður og faðir. Hann hafði starfað í lögreglunni í fimmtán ár.
Ekki hafa enn verið gefin upp nöfn annarra sem létust, en að sögn Rowleys, voru þeir af fleiri en einu þjóðerni og voru, auk Palmers, kona á fimmtugsaldri og karl á sextugsaldri. Rowley hafði staðfest fyrr í samtali við fjölmiðla að árásarmaðurinn hefði orðið fjórum að bana, en í yfirlýsingu sinni nú nefndi hann aðeins þrjá.
Ástand sjö þeirra sem særðust í árásinni er enn alvarlegt, en meðal þeirra sem særðust voru þrjú frönsk skólabörn og fimm Suður-Kóreumenn.
Uppfært: 10.49: Breska lögreglan segir nú átta hafa verið handtekna í tengslum við hryðjuverkaárásina í London í gær, en fyrri upplýsingar lögreglu sögðu sjö hafa verið handtekna í kjölfar húsleita í Birmingham, London og öðrum hlutum landsins.