Bíll sem vopn: Hvers vegna?

Vopnaðir lögreglumenn skammt frá þinghúsinu í Westminster.
Vopnaðir lögreglumenn skammt frá þinghúsinu í Westminster. AFP

Á skömmum tíma hafa verið gerðar að minnsta kosti þrjár mannskæðar hryðjuverkaárásir þar sem bíl er ekið inn í mannfjölda. Sú mannskæðasta var í frönsku borginni Nice þar sem 86 létust. Önnur var gerð á markað í Berlín þar sem tólf létust. Í gær ók svo maður á gangandi vegfarendur á Westminsterbrúnni í London. Þrír létust í þeirri árás.

Þann 14. júlí árið 2016 var nítján tonna vörubíl ekið á hóp gangandi vegfarenda í borginni Nice. Þetta var á þjóðhátíðardegi Frakka og fólkið hafði nýlokið við að fylgjast með flugeldasýningu á ströndinni. Árásarmaðurinn hét Mohamed Lahouaiej-Bouhlel. Hann var frá Túnis en búsettur í Frakklandi. Hann var skotinn til bana af lögreglu. 86 létust og yfir 430 særðust.

19. desember í fyrra var flutningabíl ekið inn í mannfjölda á jólamarkaði í Berlín. Tólf létust og 56 særðust. Árásarmaðurinn hét Anis Amri. Hann var frá Túnis en hafði leitað hælis í Þýskalandi. Amri var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó á Ítalíu fjórum dögum síðar.

Í gær ók svo maður á miklum hraða eftir Westminsterbrúnni í London í átt að þinghúsinu. Á leið sinni ók hann á gangandi vegfarendur. Þrír eru látnir og átta eru alvarlega slasaðir. Talið er að í heildina hafi um fjörutíu slasast.

Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu við þinghúsið í gær. Í dag hefur verið upplýst að hann var Breti og að leyniþjónustan hefði á einhverjum tímapunkti fylgst með honum.

Bresk yfirvöld segja að þó að gerandinn hafi verið einn að verki sé um hryðjuverkaárás að ræða. Ríki íslams lýsti svo í dag yfir ábyrgð á árásinni. Það gerðu samtökin einnig varðandi árásirnar íNice og Berlín.

Flaggað í hálfa stöng á London Eye.
Flaggað í hálfa stöng á London Eye. AFP

Einfaldar árásir auðveldar í framkvæmd

Nú þegar tækninni fleygir fram má spyrja hvers vegna hryðjuverkamenn og samtök notist við svo „einfaldar“ aðferðir í árásum sínum?

Markmið hryðjuverkaárása er ekki aðeins að drepa og skaða fólk. Það er ekki síst það að skapa ótta og auka tortryggni. Þá skiptir engu hvaða aðferðum er beitt.

Erfitt er að koma í veg fyrir árás sem byggir á þeirri aðferð að aka bílum um umferðargötur og inn í fólksfjölda. Undirbúningur slíks tilræðis þarf heldur ekki að vera mikill og kostar ekki mikla fjármuni eða sérþekkingu. Aðeins örfáir þurfa að koma að skipulagningunni. Þá tekur ekki langan tíma að undirbúa slíka árás. Í því fellst aðdráttaraflið fyrir hryðjuverkamennina en einnig varnarleysi yfirvalda.

Tími umfangsmikilla hryðjuverkaárása, sem tekur marga mánuði að undirbúa og tugi manna að framkvæma með hátæknilegum aðferðum, er því mögulega að líða undir lok.

Vel undirbúin

Frá hryðjuverkunum í London árið 2005 hafa yfirvöld í Bretlandi, með leyniþjónustuna MI5 í broddi fylkingar, þjálfað starfsfólk og æft aðgerðir til að berjast gegn hryðjuverkum af miklum móð. Árangri hefur verið náð og tekist hefur að koma í veg fyrir einhverjar árásir. Slíkar varnir hafa verið efldar enn frekar eftir hryðjuverkin í París, Nice og á fleiri stöðum, segir m.a. í samantekt BBC um málið.

Forsætisráðherra Bretlands segir að leyniþjónustan hafi á einhverjum tímapunkti fylgst með árásarmanninum sem framdi voðaverkin við þinghúsið. Hann hafi verið á „ratsjánni“ hjá henni. Þó tókst ekki að koma í veg fyrir árásina.

Yfirvöld hafa sérþjálfað starfsfólk til að draga úr hryðjuverkaógn í …
Yfirvöld hafa sérþjálfað starfsfólk til að draga úr hryðjuverkaógn í Bretlandi. AFP

Hins vegar má segja að þjálfunin, sem lítur ekki aðeins að því að koma í veg fyrir hryðjuverk eða stöðva þau þegar þau eru hafin, hafi verið til góða. Þjálfunin og áætlanir yfirvalda snúa einnig að því að halda borginni gangandi í kjölfar árása. 

Það er þess vegna sem forsætisráðherra Bretlands gat hvatt Lundúnabúa til að halda sínu striki í dag. Láta ekki óttann ná tökum á sér og lífi sínu.

Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvers vegna árásarmaðurinn gat framkvæmt árásina, meðal annars í ljósi þess að breska leyniþjón­ust­an MI5 hafði fylgst með honum fyr­ir nokkr­um árum vegna öfga­kenndra og of­beld­is­hneigðra skoðana. 

Hann tengdist þó ekki rannsóknum neinna mála og lögreglan segist eng­ar upp­lýs­ing­ar hafa haft um fyrirætlanir hans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert