Nafn árásarmannsins birt

AFP

Breska lögreglan hefur gefið upp nafn árásarmannsins sem varð þremur að bana í nágrenni Westminster í gær er hann ók inn í hóp fólks og stakk svo lögreglumann til bana. Maðurinn var síðar skotinn af lögreglumönnum. Hann hét Khalid Masood og hafði breska leyniþjónustan MI5 haft hann undir eftirliti fyrir nokkrum árum vegna öfgakenndra og ofbeldishneigðra skoðana hans.

Maðurinn var 52 ára gamall og fæddur í Kent í Bretlandi. Þrátt fyrir að hann hafi áður verið til skoðunar vegna skoðanna sinna var engin rannsókn í gangi vegna mála hans þegar árásin átti sér stað. Hann var aftur á móti á sakaskrá fyrir líkamsárásir, vopnaburð og brot á lögreglusamþykktum.

Masood var fyrst ákærður árið 1983 fyrir skemmdarverk og síðast í desember árið 2003 fyrir að vera með hníf á sér. 

Í yfirlýsingu frá lögreglunni kemur fram að „engar upplýsingar hafi verið uppi um áætlun hans um hryðjuverkaárás“.

Þar er almenningur jafnframt hvattur til að hafa samband við hryðjuverkasíma lögreglunnar ef hann býr yfir upplýsingum um Masood.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka