Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni við Westminster í gær, þar sem árásarmaður varð þremur að bana og særði yfir 40 til viðbótar áður en hann var felldur af lögreglu.
Amaq, fréttaveita Ríkis íslams, segir samtökin lýsa yfir ábyrgð á árásinni og að árásarmaðurinn hafi verið „hermaður Ríkis íslams,“ að því er fréttastofa SKY sjónvarpsstöðvarinnar greinir frá.
Áður hafði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, greint frá því að árásarmaðurinn hafi verið breskur og að breska leyniþjónustan MI5 hafi haft manninn undir eftirliti fyrir nokkrum árum vegna öfgakenndra og ofbeldishneigðra skoðana hans.
„Maðurinn fæddist í Bretlandi ... og fyrir nokkrum árum var hann til rannsóknar hjá MI5 þar sem áhyggjur vöknuðu vegna ofbeldisfullra og öfgakenndra skoðana,“ sagði May í þinginu í dag. Maðurinn var hins vegar ekki lengur undir smásjá leyniþjónustunnar og að engar vísbendingar höfðu borist um fyrirætlan mannsins áður en árásin var gerð.
Átta hafa verið handteknir í tengslum við árásina, en hundruð lögreglumanna unnu í alla nótt að rannsókn málsins. Húsleitir hafa þá verið gerðar á sex stöðum í Birmingham, London og öðrum stöðum í landinu vegna rannsóknarinnar.