Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, fundaði dag með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Stjórnvöld í Kreml sögðu að fundi loknum að fundurinn væri jafn hefðbundinn og aðrir fundir forsetans með fullrúum stjórnarandstöðuflokka.
„Við upphaf fundarins sagði forsetinn að rússnesk stjórnvöld séu tilbúin að vera í sambandi við fulltrúa allra stjórnmálaflokka, bæði með núverandi stjórn og fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Það er venjan,“ sagði Dmitry Peskov talsmaður ríkisstjórnarinnar.
Sagði hann Pútín vera í sambandi við „marga erlenda stjórnmálamenn, sem eru á einum tímapunkti eða öðrum að taka þátt í stjórnmálalífinu og í kosningabaráttu.“
Þá sagðist forsetinn ekki hafa neinn hug á að skipta sér af forsetakosningunum sem fram fara í Frakklandi í næsta mánuði. „Við erum vitaskuld meðvitaðir um að kosningabaráttan er í fullum gangi í Frakklandi,“ sagði Pútín.
„Því fer hins vegar fjarri að við séum að reyna að hafa áhrif á hvað gerist, en við áskiljum okkur rétt til að vera í sambandi við fulltrúa allra stjórnmálaafla þess lands.“
Er þetta í fyrsta skipti sem þau Le Pen og Pútín funda saman og segir Interfax fréttastofan Pútín hafa sagt Le Pen að hún stæði fyrir „hraða þróun á evrópska stjórnmálaskalanum.“ Ekki hafði verið tilkynnt um fundinn áður en þau Le Pen og Pútín hittust.
Fyrr í dag fundaði Le Pen með þingforsetanum Vyacheslav Volodin og hvatti hún þá til aukins samstarfs við Rússa í baráttunni gegn hryðjuverkum að sögn fréttavefjar BBC, sem og að viðskiptabanni Vesturvelda gegn Rússum vegna innlimunar á Krímskaga yrði aflétt.