Jared Kushner, ráðgjafi Donald Trump og tengdasonur, hefur boðist til þess að koma fram fyrir leyniþjónustunefnd bandaríska þingsins sem hluti af rannsókn hennar á tengslum Trump við Rússa.
Talsmaður Hvíta hússins greindi frá þessu í dag. Kushner starfaði sem helsti tengiliður erlendra stjórnvalda og embættismanna við forsetaframboð Trump. „Í ljósi þess hlutverks hefur hann boðið sig fram til þess að ræða við nefndina en á eftir að fá svar,“ sagði talsmaðurinn.
CNN greindi jafnframt frá því fyrr í dag að Kushner væri sérstaklega til rannsóknar af nefndinni út af fyrrnefndum tengslum.
Greint var frá rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar á tengslum helstu ráðgjafa Trump við Rússa í síðustu viku. Þingnefndin hefur byrjað að yfirheyra vitni og verður fyrsta opinbera yfirheyrslan á fimmtudaginn.
Orðrómur hefur verið um tengsl Trump og samstarfsmanna hans við stjórnvöld í Rússlandi allt frá því í kosningabaráttunni.
Í janúar greindu bandarískar leyniþjónustustofnanir frá því að tölvuþrjótar sem störfuðu fyrir rússnesk yfirvöld hafi brotist inn i tölvupóstkerfi háttsettra demókrata og birt tölvupósta sem komu sér illa fyrir kosningabaráttu Hillary Clinton, keppinaut Trump í kosningabaráttunni.
Ríkisstjórn Trump hefur alltaf haldið því fram að engar sannanir væru fyrir meintu leynimakki forsetans.
„Það eru engar sannanir fyrir leynimakki á milli Trump og Rússlands og það eru engar sannanir fyrir neinu hneyksli í tengslum við Trump og Rússa,“ sagði háttsettur embættismaður í yfirlýsingu fyrr í mánuðinum.