Áfram neyðarástand í Eþíópíu

Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu.
Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu. AFP

Eþíópíska þingið hefur samþykkt að framlengja neyðarástandið í landinu um fjóra mánuði í viðbót. Neyðarástandi var lýst yfir í október vegna mótmæla gegn stjórnvöldum sem höfðu staðið yfir í tæpt ár.

„Þingið samþykkir einróma að framlengja neyðarástandið,“ sagði í yfirlýsingu.

Varnarmálaráðherrann Siraj Fegessa sagði að framlengingin hafi verið nauðsynleg til að sjá til þess að sá friður sem hafi að mestu ríkt í landinu undanfarið og aukið öryggi yrðu viðvarandi ástand.

Forsætisráðherra Eþíópíu, Hailemariam Desalegn, lýsti yfir sex mánaða neyðarástandi í október eftir að mótmæli höfðu farið fram í mismunandi landshlutum. Stjórnvöld tóku harkalega á mótmælendum og að sögn mannréttindahópa létust nokkur hundruð manns.

Um ellefu þúsund manns voru handteknir en flestum var þeim sleppt lausum skömmu síðar.

Mótmælendurnir vilja losna við Lýðræðislega byltingarflokk eþíópíska fólksins frá völdum en hann hefur ráðið ríkjum árinu 1991.

Feyisa Lilesa, silfurverðlaunahafinn á Ólympíuleikunum í Ríó, vakti athygli á mótmælunum á leikunum með því að krossleggja hendur sínar fyrir ofan höfuð. Hann er núna í útlegð í Bandaríkjunum.

Neyðarástandið sem núna ríkir í Eþíópíu er það fyrsta síðan einræðisherrann Mengistu Haile Mariam hrökklaðist frá völdum árið 1991.

Feyisa Lilesa krossaði hendur fyrir ofan höfðu sér til stuðnings …
Feyisa Lilesa krossaði hendur fyrir ofan höfðu sér til stuðnings baráttu Oromo fólksins er hann fór yfir marklínuna. Hann hélt ekki heim til Eþíópíu eftir að Ólympíuleikunum lauk. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert