Myndskeið af því þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti gekk út af forsetaskrifstofunni án þess að skrifa undir tvær tilskipanir hefur verið birt víða á netinu í gær og í dag.
Fréttamenn voru mættir á skrifstofuna til að verða vitni að því er Trump myndi skrifa undir tvær forsetatilskipanir er varða viðskipti við útlönd. Er forsetinn mætti spurðu fréttamennirnir hann út í þá þær fréttir að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi hans, Michael Flynn, ætli að gefa vitnisburð um afskipti Rússa af forsetakosningunum í fyrra, gegn friðhelgi.
Trump lét spurningarnar sem vind um eyru þjóta. Sneri svo við og gekk út.
Sú ákvörðun virtist koma rágjöfum hans á óvart. Það var svo varaforsetinn Mike Pence sem sótti möppurnar með tilskipununum af borði forsetans og elti hann út. Í frétt CNN segir að Trump hafi síðar skrifað undir tilskipanirnar en það hafi verið gert bak við luktar dyr.