„Þegar þú drepur saklaus börn“

Myndir af  Abdul Hamid Youssef með börn sín, tvíburana Ahmed og Aiya, lætur engan ósnortin. Ekkert frekar en myndir af öðrum börnum sem köfnuðu í efnavopnaárás Sýrlandshers á bæinn Khan Sheikhun í Idlib-héraði á þriðjudagsmorgun. Donald Trump hótar einhliða aðgerðum Bandaríkjanna í Sýrlandi. 

Varað er við myndefni sem fylgir þessari frétt

Abdul Hamid Youssef segir að heimurinn verði að fá upplýsingar um ástandið í heimabæ hans og hefur veitt fjölmiðlum leyfi til þess að birta myndir af honum með litlu tvíburana sem báðir létust í árásinni. Ekki bara þau því 20 úr fjölskyldu Youssef létust, þar á meðal eiginkona hans.

Abdul Hamid Youssef með börnin sín, tvíburana Ahmed og Aiya.
Abdul Hamid Youssef með börnin sín, tvíburana Ahmed og Aiya.

Ahmad og Aya voru níu mánaða gömul þegar þau létust ásamt móður sinni, Dalal, og 16 öðrum ættingjum. Þau hvíla nú í ómerktri fjöldagröf.

„Ég gat ekki bjargað þeim“

Youssef, sem er 29 ára gamall, er verslunarmaður og var farinn til vinnu þegar loftárásirnar hófust um 6.30 á þriðjudagsmorgun. Þegar eiginkona hans hringdi í hann og lét hann vita hvað hafði gerst flýtti hann sér heim. Allt virtist vera í lagi en í öryggisskyni fór hann með fjölskyldu sína niður í kjallara húss í nágrenninu ef gerðar yrðu frekari loftárásir. En klukkutíma síðar byrjuðu einkennin að koma fram. 

„Fjölskyldan beið öll þarna niðri og við vorum örugg en síðan fóru þau af kafna,“ segir frændi Youssef, Alaa í samtali við Telegraph.

„Tvíburarnir fóru allt í einu að hristast og skjálfa og áttu í öndunarerfiðleikum. Síðan horfði hann á eiturefnin ná tökum á eiginkonu sinni, síðan var það bróðir hans, frænkur og frændur,“ segir Alaa.

„Allir létust niðri í kjallaranum - það gafst ekki tími til að koma þeim á sjúkrahús,“ bætir hann við. Hann segir að Youssef hafi endurtekið í sífellu: „Ég gat ekki bjargað neinu þeirra, ég gat ekki bjargað þeim.“

Ahmad og Aya voru níu mánaða gömul þegar þau létust …
Ahmad og Aya voru níu mánaða gömul þegar þau létust ásamt móður sinni, Dalal.

Hryllileg árásin snertir hjörtu flestra og einn þeirra er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Hann hefur breytt um skoðun á málefnum Sýrlands en árið 2013 var hann einn helsti andstæðingur þess að Bandaríkin myndu grípa inn eftir efnavopnaárás Sýrlandshers. 

Viðhorf Trump hefur breyst

Þegar Trump tók við embætti forseta hét hann því að bæta samband Bandaríkjanna við helsta bandamann Bashar Hafez al-Assad Sýrlandsforseta, Vladimír Pútín, forseta Rússlands. En nú hafa forsendur þess breyst og segir Trump árásina á Khan Sheikhun blett á mannkyninu. Að minnsta kosti 86 létust í árásinni og tugir liggja þungt haldnir eftir árásina.

Börn sem létust í árásinni borin til grafar.
Börn sem létust í árásinni borin til grafar. AFP

Í gær voru birtar myndir af börnum þar sem þau sjást sárkvalin, froðan vellur út úr munnvikum þeirra og krampakippir fara um líkama þeirra allt þangað til þau kafna.Trump lýsti því yfir eftir að hafa séð myndirnar að árásir sem þessar verði ekki liðnar. Viðhorf hans til stríðsins í Sýrlandi hefði breyst eftir efnavopnaárásina á þriðjudag enda hafi hún farið út fyrir öll mörk.

Heilu fjölskyldunnar þurrkuðust út í árásinni.
Heilu fjölskyldunnar þurrkuðust út í árásinni. AFP

„Þegar þú drepur saklaus börn, saklaus börn, kornabörn... þá fer það út fyrir öll mörk,“ varar Trump við. Hann segir að það hafi þegar gerst og viðhorf hans til Sýrlands og Assad hafi breyst mjög mikið. Enda sé verið að tala um eitthvað allt annað núna. 

Trump fór ekki nánar út í viðbrögð bandarískra yfirvalda og til hvaða aðgerða verði gripið en hingað til hefur hann verið andstæðingur þess að Bandaríkin hæfu hernað í Sýrlandi.

Sýrlandsstjórn ber ábyrgð

Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Nikki Haley, varar við því að ekki sé útilokað að Bandaríkin fari í einhliða aðgerðir gegn sýrlenskum yfirvöldum og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, hvetur Rússa til þess að endurskoða stuðning sinn við Assad. „Það er enginn vafi í mínum huga um að sýrlensk yfirvöld undir stjórn Bashar al-Assad beri ábyrgð á þessari hryllilegu árás,“ segir Tillerson.

Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, Nikki Haley, sést hér með mynd …
Fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu, Nikki Haley, sést hér með mynd af fórnarlambi árásarinnar þar sem hún flytur ræðu í ráðinu. AFP

Tillerson fer til Moskvu í næstu viku til viðræna við stjórnvöld þar í landi og er ljóst að þær viðræður verða undir skugga atburðanna í Khan Sheikhun.

Rússnesk yfirvöld hafa staðið fast á stuðningi sínum við Sýrlandsstjórn og í gær héldu þau því fram að loftárásir Sýrlandshers hefðu hæft vöruhús hryðjuverkamanna en þar hafi verið geymd efnavopn.Haley gefur lítið fyrir þessar skýringar og á fundi öryggisráðsins í New York í gær sagði hún að rússnesk yfirvöld endurtaki aftur og aftur lygi sína til þess að verja og beina athyglinni frá bandamönnum þeirra í Damaskus. 

AFP

Getum ekki staðið hjá

Þegar hún er spurð að því hvort Bandaríkin grípi til einhliða aðgerða líkt og Trump ýjar sagði hún: „Þegar Sameinuðu þjóðirnar ítrekað standa ekki við skuldbindingar sínar þá geta komið upp þær aðstæður að við getum ekki staðið hjá og verðum að grípa sjálf til aðgerða.“

Líkt og áður neitar ríkisstjórn Sýrlands að hafa gert efnavopnaárás á bæinn íIdlib-héraði en þangað voru margir íbúar Aleppo fluttir eftir að samkomulag náðist um uppgjöf uppreisnarmanna í austurhluta borgarinnar. 

Sýnum safnað í Khan Sheikhun.
Sýnum safnað í Khan Sheikhun. AFP

Bæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og samtökin Læknar án landamæra (MSF) segja að fórnarlömb árásarinnar beri merki þess að hafa orðið fyrir eitrun með taugagasi, líklega sarín.

Telegraph

BBC

Guardian

New York Times

CNN

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert