Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, fordæmir aftöku þriggja manna á Gazaströnd í dag en þeir voru sakaðir um að starfa með Ísraelsmönnum af Hamas-samtökunum.
Samtökin hvetja Hamas-samtökin til þess að hætta slíkri villimennsku. Mennirnir þrír voru teknir af lífi eftir að Hamas lýsti því yfir að þau myndu hefna fyrir morð á einum félaga samtakanna í síðasta mánuði. Saka samtökin leyniþjónustu Ísrael, Mossad, um að bera ábyrgð á morðinu sem og palestínskum samstarfsmönnum Mossad.
Þremenningarnir, sem voru hengdir í morgun, tengdust ekki drápinu á neinn hátt en samkvæmt fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneyti Hamas eiga þeir að hafa starfað með Ísraelum hér áður fyrr.
Í yfirlýsingu frá Mannréttindavaktinni kemur fram að Hamas muni aldrei ná fram friði og stöðugleika á svæðinu með því að beita gálganum og aftökusveitum fyrir sig. Nær sé fyrir samtökin að fara að alþjóðalögum.
Í gögnum Mannúðarvaktarinnar kemur fram að alls hafi Hamas-samtökin tekið 25 Palestínumenn af lífi síðan þau náðu yfirráðum á Gazaströndinni árið 2007.