Körfufylli af Twitter-vænum samningum

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania kona hans taka á móti …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania kona hans taka á móti Xi Jinping forseta Kína og konu hans Peng Liyuan. Ómögulegt þykir að spá um hvernig fundur þeirra muni fara. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína, komu í dag til Flórída þar sem þeir munu eiga sinn fyrsta fund. AFP-fréttastofan segir augu leiðtoganna vera á körfufylli af Twitter-vænum samningum, sem hugsaðir eru til að forðast megi opinberan ágreining.

Rauði dregillinn var á sínum stað þegar Xi lenti á flugvellinum í Palm Beach og heiðursvörður tók á móti forsetanum sem þykir gefa til kynna hversu mikið sé í húfi.

Trump lenti skömmu síðar og hélt strax á Mar-a-Lago dvalarleyfisstaðinn, sem hefur verið kallaður vetrarútgáfan af Hvíta húsinu, en þar munu forsetarnir funda næsta sólarhringinn.

Lofar afslöppuðum samskiptum

Dagskráin er nokkuð opin og er hugmyndin sú að leiðtogarnir nái að tengjast betur þannig.

Matt Pottinger, einn helsti sérfræðingur Hvíta hússins í málefnum Asíu sem skipulagði ráðstefnuna, lofaði „afslöppuðum samskiptum“ þrátt fyrir spennuna sem ríkir milli Kína og Bandaríkjanna varðandi viðskiptasamninga og málefni Norður-Kóreu.

„Makar verða á staðnum,“ sagði Pottinger og gaf til kynna að forsetafrúin Melania Trump og Peng Liyuan, eiginkona Xi sem er þekktur þjóðsöngvari í heimalandi sínu, muni einnig taka þátt í dagskránni.

AFP segir vandlega skipulögðum matarboðum og sýningu á kunningsskap ætlað að breiða yfir næstum sýnilegar áhyggjur af því hvernig fundurinn muni fara.

Hristir upp í milliríkjasamskiptum með Twitter

Enginn, hvorki diplómatar né aðstoðarmenn forsetanna, eru vissir um hvað muni gerast þegar valdamesti leiðtogi Kínverja í áratugi hittir hinn litríka Trump, sem hefur sýnt að er fær um að hrista duglega upp í milliríkjasamskiptum með 140 slaga Twitter-færslu.

Af þeim sökum kemur Xi til fundarins hlaðinn „Twitter-vænum“ gjöfum að sögn heimildamanna AFP. Er þar að finna samninga sem snúa að helstu baráttumálum Trump tengdum viðskiptum og atvinnusköpun, sem Xi vonast til að bæti samskipti þeirra Trump, sem byrjuðu með deilum um Taívan.

Efst á listanum er kínversk fjárfestingaáætlun sem getur falið í sér meira en 700.000 störf í Bandaríkjunum. Einnig kunna að leynast í pakkanum frekari tilboð tengd bíla- og landbúnaðarmarkaði Kína og möguleg tilslökun varðandi peningafærslur Norður-Kóreu í gegnum kínverska banka, sem hafa verið líflína fyrir fjárráð Norður-Kóreu.

Xi vonast í staðinn til að fá fullvissu Trumps fyrir því að hann grípi ekki til refsiaðgerða og láti vera að selja bandarísk vopn til Taívan, að minnsta kosti þar til eftir aðalfund kommúnistaflokksins síðar árinu.

Mikið er í húfi fyrir bæði ríkin og deilur varðandi Norður-Kóreu og tvíhliða viðskipti ríkjanna eru sagðar geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert