Árás Bandaríkjanna skiljanleg

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra telur loftárás Bandaríkjamanna á herflugvöll í Sýrlandi í nótt skiljanlega vegna þess að hún hafi verið takmörkuð og beinst að flugvellinum þar sem efnavopnaárásin var gerð.

Íslendingar séu sammála Norðmönnum, Þjóðverum og öðrum bandamönnum hvað þetta varðar. 

„Í ræðu minni á ráðstefnu í Brussel í vikunni fordæmdi ég efnavopnaárás á Sýrlandi og hvatti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að skerast í leikinn,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is, en því miður hafi Öryggisráðið ekki getað tekið af skarið.

Spurður hvort ríkisstjórnin styðji loftárásir Bandaríkjanna segir Guðlaugur að Íslandi hafi ekki komið að þeirri ákvörðun og það hafi ekki verið haft samráð við Íslendinga. „Eins og ég nefndi þá hefði verið farsælast ef Öryggisráðið hefði komið sér saman um aðgerðir. Það er skiljanlegt að eiturefnaárásir kalli á viðbrögð.“

Guðlaugur kynnti ríkisstjórninni þær upplýsingar sem hann hefur um málið á fundi í morgun. „Við erum að afla upplýsinga en við erum ekki aðilar að þessu með neinum hætti,“ segir Guðlaugur og bætir við að ekki sé að vænta yfirlýsingar frá ríkisstjórninni vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert