„Heimskuleg og óábyrg“

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Árás Bandaríkjamanna á herstöð í Sýrlandi snemma í morgun var „heimskuleg“ og „óábyrg“, að því er segir í yfirlýsingu frá skrifstofu Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Enn fremur sagði í yfirlýsingunni að aðgerðinar væru til marks um skammsýni og „pólitíska og hernaðarlega blindu gagnvart raunveruleikanum“.

Stjórnvöld í Sýrlandi hyggjast bregðast við árásinni með því að herða sókn sína gegn uppreisnarmönnum í landinu og „mylja“ þá mélinu smærra.

„Sá svívirðilegi gjörningur að gera flugvöll í sjálfstæðu ríki að skotmarki sínu, sýnir enn og aftur að áherslur breytast ekki með nýjum stjórnum,“ sagði í yfirlýsingu forsetaskrifstofunnar um árásina.

Ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta að grípa í fyrsta sinn til hernaðaraðgerða gegn sýrlenskum stjórnvöldum kemur á hæla efnavopnaárásar í Khan Sheikhun, sem vesturveldin eru almennt sammála um að hafi verið framkvæmd af stjórnarhernum.

Myndir af látnum börnum og þjáningu eftirlifenda hafa vakið mikla reiði víða um heim en ónefndur embættismaður innan sýrlenska utanríkisráðuneytisins sagði í samtali við sýrlenska fjölmiðla að efnavopnaárásin hefði verið framin af öðrum með það í huga að gefa Bandaríkjamönnum átyllu til að láta til sín taka.

Mótmælendur í Tyrklandi hrópa slagorð gegn meintri aðkomu Rússa að …
Mótmælendur í Tyrklandi hrópa slagorð gegn meintri aðkomu Rússa að efnavopnaárásinni í Khan Sheikhun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert