„Ég vinn 200 metra frá staðnum. Eftir að þetta gerðist fengum við sms frá fjölskyldu og vinum um hvað hafði gerst. Við heyrðum fljótlega í þyrlum sem voru fljótar á staðinn og urðum vör við mikinn viðbúnað,” segir Erling Ormar Vignisson sem vinnur hjá bankanum Landshypotek í Stokkhólmi sem er um 200 metra frá staðnum þar sem vörubíll keyrði inn í mannfjölda á Drottningargötu í Stokkhólmi laust fyrir klukkan þrjú í dag. Gatan er fjölfarin verslunargata og árásin var gerð á þeim tíma þegar margir halda heim úr vinnu.
Í bankanum var strax hafist handa við að reyna að hafa uppi á þeim starfsmönnum sem höfðu þegar farið heim á svipuðum tíma og árásin var gerð.
„Það eru misvísandi sögur í gangi núna. Sumir segja að það séu menn á ferðinni sem maður vildi ekki hitta,” segir Erling. Nokkrum fyrirtækjum í nágrenninu hefur verið lokað og þar er starfsfólki haldið inni þar til ljóst er að allt er orðið öruggt.
Búið er að stöðva allar almenningssamgöngur. „Ég ætla núna að reyna að finna leigubíl til að komast heim. Ég hugsa að ég sé ekki sá eini sem fæ þessa hugmynd,” segir Erling.
„Ég er með smá gæsahúð á lærunum,“ segir Erling. Hann er búinn að heyra í fjölskyldu sinni sem býr í Stokkhólmi en hann er sá eini sem starfar á þessum slóðum en hann býr í úthverfi Stokkhólms. „Dóttir mín er í bíó með vinkonu sinni. Næsta mál er að reyna að koma henni heim. Hún fer ekki með almenningssamgöngum í dag.“