Sex létust í árás Bandaríkjahers á herstöð sýrlenska hersins, Shayrat, í Homs-héraði í nótt, samkvæmt upplýsingum frá sýrlenska hernum. Nokkrir særðust í árásinni og miklar skemmdir urðu á herstöðinni. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem talsmaður hersins las upp í sýrlenska sjónvarpinu í morgun. Ekki var tilgreint hvort þeir sem létust eða særðust hafi verið hermenn eða almennir borgarar né heldur var upplýst frekar um þær skemmdir sem urðu á svæðinu.
Árásin er fyrsta beina hernaðaraðgerð Bandaríkjanna gegn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, síðan stríðið hófst í Sýrlandi fyrir rúmum sex árum. Donald Trump forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði árásina í kjölfar efnavopnaárásar sem gerð var á þorp sem er undir stjórn uppreisnarmanna í Idlib-héraði fyrr í vikunni. Sýrlandsstjórn hefur neitað því að efnavopnum hafi verið beitt gegn almennum borgurum.
Í yfirlýsingunni sem fulltrúi hersins las upp í morgun kemur fram að árásinni í nótt verði svarað með því að tryggja enn frekar öryggi sýrlensku þjóðarinnar og varnir hryðjuverkamanna verði brotnar niður hvar sem þeir eru.
Stjórnvöld í Sýrlandi saka Bandaríkjastjórn um að vera í bandalagi með vígasamtökum eins og Ríki íslams og til þess að réttlæta árásina sé sökinni á efnavopnaárásinni beint að stjórnvöldum í Damsakus án þess að sannleikurinn hafi komið fram.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa harðlega fordæmt árás Bandaríkjanna í nótt hafa ákveðið að stöðva samkomulag við Bandaríkin sem átti að koma í veg fyrir átök milli herja ríkjanna í lofthelgi Sýrlands.
Rússar kröfðust þess í dag að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yrði kallað saman til neyðarfundar þar sem árás Bandaríkjahers verður rædd. Rússar telja að um skýlaust brot á alþjóðalögum sé að ræða.
Heimildir Guardian herma að yfirmenn leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna telji að fulltrúi rússneska hersins hafi verið í al-Shayrat herstöðinni þegar sarín-taugagasinu var komið fyrir í sýrlensku orrustuþotunni. Ekki sé hins vegar fullvíst að hann hafi vitað af hleðslunni. Herstöðin nær yfir rúmlega átta ferkílómetra svæði og eru tvær flugbrautir auk tuga bygginga á svæðinu.
Stjórnarandstaðan í Sýrlandi hefur birt upplýsingar um flugmanninn sem bar ábyrgð á því að varpa sprengjum á bæinn Khan Sheikun um klukkan 6:30 á þriðjugasmorguninn. Fimm tímum síðar, um klukkan 11:30 var byrjað að veita fórnarlömbum árásarinnar læknishjálp.
Fylgst er grannt með flugumferð í Sýrlandi af Tyrkjum, Bandaríkjamönnum og Rússum og allir þrír hafa staðfest að flugvélarnar hafi flogið yfir svæðið þar sem sprengjunum var varpað. Tyrkir hafa nú lagt til að bann verði lagt við flugumferð yfir Sýrlandi í kjölfar árásarinnar í nótt.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa lýst yfir annað hvort stuðningi eða andstöðu við ákvörðun Trump að fyrirskipa loftárás á herstöð Sýrlandshers í nótt.
Nú síðast hafa þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og forseti Frakklands, Francois Hollande, sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að ábyrgðin sé öll hjá forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Eftir að sýrlensk stjórnvöld hafi beitt efnavopnum við fjöldamorð í Khan Sheikhun í norðvesturhluta Sýrlands hafi hergögnum þeirra verið eytt af Bandaríkjaher. Þar beri Assad fulla ábyrgð með gjörðum sínum 4. apríl.