Þrír látnir í Stokkhólmi

Flutningabílnum var ekið inn í verslunarmiðstöð við Drottninggatan í miðbænum.
Flutningabílnum var ekið inn í verslunarmiðstöð við Drottninggatan í miðbænum. AFP

Að minnsta kosti þrír létu lífið þegar vöruflutningabíl var ekið inn í mannfjölda í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi. Átta eru særðir samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. 

Sænska leyniþjónustan Sapo segir að um árás hafi verið að ræða. „Það hafa verið dauðsföll og margir hafa slasast,“ sagði Nina Odermalm Schei, talsmaður Sapo, við AFP-fréttastofuna.

Einn handtekinn 

Forsætisráðherra Svíþjóðar Stefan Löfven segir einnig að um hryðjuverkaárás sé að ræða. Hvetur hann fólk til þess að hlusta á upplýsingar frá lögreglu. Hann segir að einn hafi verið handtekinn vegna árásarinnar. 

„Lögreglan fékk neyðartilkynningu um að manneskja í bifreið hefði sært fólk á Drottningargötu,“ skrifaði sænska lögreglan á Twitter.  

Atvikið gerðist klukkan 14.53 að sænskum tíma á þessari fjölmennustu göngugötu borgarinnar.

Sky News vitnar í sænska útvarpið sem segir að þrír hafi látist. Fréttastofan SVT- segir að skotum hafi verið hleypt af í verslunarmiðstöðinni.

Samkvæmt sjónarvotti lögðu hundruð manna á flótta, að því er Aftonbladet greindi frá. Lögregla hefur ráðlagt fólki að forðast miðbæinn og ekki nota neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar. 

Atvikið átti sér stað á horni Åhléns Citys-verslunarmiðstöðvarinnar og stærstu göngugötu borgarinnar, fyrir ofan neðanjarðarlestarstöð Stokkhólms, að því er AFP-greindi frá.

Samkvæmt Aftonbladet var ekið á fólkið skammt við Åhléns City …
Samkvæmt Aftonbladet var ekið á fólkið skammt við Åhléns City verslunarmiðstöðina. Af Google Maps

Þykkan reyk lagði frá staðnum.

Miðað við myndbandsupptökur hefur lögreglan lokað svæðið af fyrir almenningi.

Þyrlur sveima einnig yfir staðnum. Fjöldi lögreglu- og sjúkrabíla hefur verið kallaður á vettvang.

Vitni lýsir því við Aftonbladet að mikil örvænting hafi gripið um sig þegar bifreiðin birtist skyndilega: „Ég fór á göngugötuna þegar stór trukkur birtist skyndilega. Ég sá ekki hvort einhver var að aka honum en hann var stjórnlaus. Ég sá að hann ók yfir að minnsta kosti tvo. Ég hljóp eins hratt og ég gat í burtu.“

„Það er algjör ringulreið. Ég veit ekki hversu margir meiddust en margir eru í miklu áfalli,“ sagði Leif Arnmar við fréttastofu SVT en hann var að störfum í verslunarmiðstöðinni.  



AFP
AFP
Sérsveitin að störfum í Stokkhólmi.
Sérsveitin að störfum í Stokkhólmi. AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert