Blaðamennirnir sem öðluðust heimsfrægð þegar þeir uppljóstruðu um Watergate-hneykslið verða heiðursgestir og munu flytja ræður þegar fréttamenn við Hvíta húsið koma saman snæða kvöldverð saman 29. apríl nk.
Um er að ræða hinn árlega White House Correspondents Assoociation Dinner en blaðamennirnir sem um ræðir eru að sjálfsögðu Bob Woodward og Carl Bernstein, sem fóru fyrir fréttateymi Washington Post sem fjallaði um innbrot á Watergate-hótelinu árið 1972.
Blaðamennirnir röktu slóðina til Hvíta hússins, eins og frægt er orðið, og leiddi umfjöllun blaðsins til afsagnar Richard Nixon, þáverandi forseta, árið 1974.
Hefð er fyrir því að forseti Bandaríkjanna ávarpi blaðamennina og gesti þeirra á kvöldverðinum en Donald Trump hefur tilkynnt að hann verði fjarri góðu gamni. Skal engan undra, enda hefur samband hans við pressuna verið einstaklega fjandsamlegt.
Ítrekaðar upphrópanir Trump um „óheiðarlega fjölmiðla“ og „falskar fréttir“ urðu til þess að margir blaðamenn og miðlar íhuguðu að sniðganga kvöldverðinn og þá hafa New Yorker og Vanity Fair afboðað veislur sem haldnar hafa verið í tengslum við hátíðina.
Trump verður fyrsti forsetinn sem mætir ekki í kvöldverðinn frá 1981, þegar Ronald Reagan afboðaði komu sína. Hann var þá að jafna sig eftir tilræðistilraun.
Woodward, 74 ára, starfar enn hjá Washington Post en Bernstein, 73 ára, hefur unnið fyrir ABC News og aðra miðla, auk þess að skrifa nokkrar bækur.