Handtóku grunaðan sprengjumann í Ósló

Stórt svæði umhverfis hina grunsamlegu tösku var girt af á …
Stórt svæði umhverfis hina grunsamlegu tösku var girt af á meðan hún var sprengd upp. Hvellurinn þótti hærri en sá sem kemur eingöngu frá sprengibúnaðinum. AFP

Sprengjudeild norsku lögreglunnar sprengdi í nótt litla tösku sem óttast var að innihéldi sprengju. Taskan fannst í nágrenni Grønland-torgs í Grønland-hverfinu í Ósló í gærkvöldi og var stórt svæði umhverfis töskuna rýmt á meðan henni var eytt.

Einn maður hefur verið handtekinn og er hann grunaður um að hafa komið töskunni fyrir og segir á vef norska ríkisútvarpsins NRK að hann hafi stöðu grunaðs manns. Maðurinn var handtekinn skömmu áður en taskan fannst, þar sem hann þótti hegða sér grunsamlega og leiddi handtakan til þess að taskan fannst.

Lögregla segir enn ekki hægt að staðfesta að sprengja hafi verið í litlum kassa sem var í töskunni. Kassinn hafi engu að síður verið grunsamlegur og hvellurinn sem varð þegar sprengjudeild lögreglu eyddi töskunni hafi verið töluvert hærri, en sá sem kemur frá sprengibúnaðinum sem notaður er til verksins.

Öryggisdeild norsku ríkislögreglunnar, sem m.a. hefur umsjón með rannsóknum á meintum hryðjuverkum, hefur nú tekið yfir rannsóknina á hinum meinta sprengjufundi. Þetta staðfesti Martin Bernsen, fjölmiðlafulltrúi öryggislögreglunnar, í samtali við NRK.

Sagði Bernsen rannsóknina vera afar stutt á veg komna, en að ýmis málsatvik væru með þeim hætti að eðlilegt sé að öryggislögregla taki við rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert